136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

lyfjalög.

445. mál
[20:55]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við tökum til 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum, um breytingu á lyfjalögum, sem fjallar um að framlengja heimild til að veita afslætti við afgreiðslu lyfja í smásölu.

Hæstv. forseti. Nefndin hefur að eigin frumkvæði fjallað um frumvarpið á milli 2. og 3. umr. í tilefni af því að ekki tókst að taka það til 3. umr. áður en gildisfrestur sem því er ætlað að framlengja rann út. Öðrum þræði má rekja þessi mistök til þess að frumvarpið var óvænt tekið út af dagskrá þingfundar í gær þegar Alþingi tók til umfjöllunar mikilvægt mál sem varðaði breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Að athuguðu máli kom fram sá skilningur innan nefndarinnar, eftir að hún hafði ráðfært sig við lögfræðinga þingsins og fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins, að framlenging frestsins sé ívilnandi gagnvart hlutaðeigendum, þ.e. smásöluaðilum lyfja sem fá samkvæmt frumvarpinu áframhaldandi heimild til að veita afslætti án þess að tilkynna það til lyfjagreiðslunefndar. Að sama skapi ætti þetta að koma sjúklingum til góða.

Með hliðsjón af framangreindu leggur framsögumaður áherslu á að frumvarpið verði samþykkt og birt sem lög svo fljótt sem verða má.