136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

lyfjalög.

445. mál
[21:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Við sjálfstæðismenn styðjum þetta mál og höfum stutt það, en þetta er kannski birtingarmynd af klúðrinu hérna í þinginu og hvernig þessi vinnubrögð hafa leitt okkur í svo mjög sérkennilega hluti. Nú er málið þannig að — (Gripið fram í: Málþóf?) Virðulegur forseti. Af hverju vilja hv. þingmenn ekki heyra hvernig í málinu liggur? Í morgun — (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Heldurðu að það sé möguleiki á að …?

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni tóm til að tala.)

Virðulegur forseti. Við erum að greiða atkvæði um bann sem tók gildi í morgun og við erum að bjarga okkur fyrir horn í kvöld vegna þess að það gleymdist að ganga frá málinu í gær eða fyrradag. Þetta hefur legið fyrir í fleiri vikur, en út af klúðrinu hérna og stjórnleysi í þinginu erum við að bjarga okkur fyrir horn. Við styðjum málið en þetta er ein birtingarmyndin af því að þegar menn vinna ekki saman, vinna ekki með stjórnarandstöðunni og eru ekki einbeittir í því að vinna vel að málum sem skipta máli verða svona slys. (Gripið fram í: Hvenær lýkur málþófinu?)