136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[21:25]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Grétar Mar Jónsson vill marka sín spor í kvikmyndasögunni með því að láta í ljósi jákvætt álit sitt á þessu máli. Ég gat ekki betur heyrt en að það færi í öllum meginatriðum saman við það sem ég var að reyna að segja áðan. Hann hefur eitthvað misskilið það þegar ég var að tala um að verið væri að velja úr ákveðna atvinnugrein til þess að hygla.

Ég gerði ekki neina athugasemd við að það væri gert, færði meira að segja rök fyrir því hvers vegna það væri hægt í þessu tilfelli. Ég dró hins vegar almennar ályktanir af því góða sem er hægt að gera fyrir þessa atvinnugrein og færa það almennt yfir á allar atvinnugreinar.

En ég vil hins vegar segja að það hefði nú verið dálítið gaman ef maður hefði getað verið með þeim félögunum, hv. þm. Grétari Mar Jónssyni og Clint í Sandvíkinni. Það hefði getað verið skemmtilegt að spássera þar með þeim.