136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[21:29]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum. Frumvarpið sem slíkt er afar stutt en það er margt sem þarf að segja um tilgang og afleiðingar þess sem hér er verið að gera.

1. gr. fjallar um það að endurgreiðsluhlutfallið sem um ræðir hækki úr 14% í 20%. Við Íslendingar leitumst við það hér að aðlaga löggjöf okkar að því sem gerist í mörgum nágrannalöndum okkar sem eru á þessu bili þó svo að Írar séu með heldur hærra hlutfall eða 28% endurgreiðslu og þeim hefur orðið ágengt hvað þetta varðar og þess vegna hafa þeir kannski náð fleiri tækifærum til sín. Við erum sem sagt að feta okkur í skrefum í átt til þeirra þjóða sem hafa verið að fikra sig áfram hvað þetta varðar.

Ég átti sæti í iðnaðarnefnd þegar endurgreiðsluhlutfallið var hækkað úr 12% í 14% og minnist þess vegna umræðunnar sem þá fór fram þar sem þessi mál voru mjög vel skoðuð og farið í gegnum lög sem giltu um þetta í nágrannalöndum. Nú er verið að gera enn betur og við teljum að það sé mjög jákvætt fyrir þessa atvinnugrein. Á þeim tíma var skipuð nefnd með fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands. Ég átti jafnframt sæti í menntamálanefnd á þessum tíma og þá var einmitt verið að koma á fót Kvikmyndamiðstöð Íslands sem var nýjung. Þannig að á þeim tíma sem m.a. Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að ríkisstjórn var í raun verið að þróa þessi mál með lagasetningu um Kvikmyndamiðstöð Íslands og Kvikmyndasjóð og þeirri lagaumgjörð sem hér um ræðir.

Það er rétt að rifja það upp í sögulegu samhengi hve ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vannst mikið í þessum málaflokki og kom mörgu góðu til leiðar hvað þetta varðar. Þetta ætlum við Íslendingar auðvitað að nota til að skapa atvinnu í auknum mæli og afla gjaldeyris fyrir þjóðina. Við þurfum virkilega á því að halda núna að skapa störf og afla gjaldeyris.

Í nýsköpun í myndmiðlunariðnaði á Íslandi er talað um að skapa megi hugsanlega 3.000 ný störf árið 2012. Við erum því að tala um gríðarlega uppbyggingu og mikla möguleika hvað þetta varðar. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að fara nokkrum orðum um það sem hér er verið að gera. Að sjálfsögðu er um gríðarlega lyftistöng að ræða fyrir þá sem stunda þessa atvinnugrein hér á landi. Þetta mun stuðla að því að hér verða til störf, sérhæfð störf sem heyra undir kvikmyndagerð í víðum skilningi. Kvikmyndagerð er ekki bara gerð kvikmynda sem við þekkjum frá bæði sjónvarpi og kvikmyndahúsum heldur getur verið um að ræða kynningarmyndbönd og auglýsingar hvers konar, og um leið og við erum farin að laða slíka vinnu og starfsemi að landinu sem skapar eins og áður sagði gjaldeyri, skapast ýmis afleidd störf í landinu.

Ég get vitnað um það að í því kjördæmi sem ég kem frá, Suðurkjördæmi, hefur verið þó nokkuð um kvikmyndagerð allt frá Reykjanestá og austur á Hornafjörð, á Skógarsandi, Skeiðarársandi, Jökulsárlóni og allt austur að Hornafirði. Þetta spannar allt kjördæmið og hefur haft geysilega mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustuna. Oftar en ekki hafa þessar upptökur átt sér stað yfir vetrartímann þegar tiltölulega lítið er um að vera í ferðaþjónustu og þá er það kærkomin aukaafurð fyrir ferðaþjónustuna að fá að þjónusta og þjóna því fólki sem tekur þátt í kvikmyndagerðinni, bæði tæknimönnum og öllum sem þar að koma. Þetta er þar af leiðandi mjög jákvætt fyrir landsbyggðina vegna þess að kvikmyndagerðin sem slík, auglýsingamyndir og annað, fer oftar en ekki fram úti í náttúrunni, úti í íslenskri náttúru. Og þar sem ég hef nefnt að þetta hafi mjög jákvæð áhrif á ferðaþjónustu er það náttúrlega ekki síður mikil landkynning þegar kvikmyndir eru gerðar í íslenskri náttúru og hafa þar af leiðandi margföldunaráhrif fyrir ferðaþjónustuna og eru mikil landkynning í það heila tekið og það skiptir miklu máli.

Íslensk náttúra er eins og við þekkjum er einstök þegar kemur að kvikmyndagerð og með því að fá erlenda aðila og reyndar íslenska líka til að stunda þessa iðju, þessa iðngrein hér í náttúrunni erum við annars vegar að koma því fólki sem sér viðkomandi myndir og myndbönd í samband við okkar samfélag og okkar náttúru og ekki síður því fagfólki sem vinnur að einstökum verkefnum. Það fólk áttar sig auðvitað enn betur á í návígi við íslenska náttúru hvað hún býður upp á og hvernig megi nota hana til kvikmyndagerðar. Þess vegna verða margháttuð margföldunaráhrif af því að taka upp frekari endurgreiðslur hvað þetta varðar en áður hefur verið gert. Við sjáum að þrátt fyrir þá endurgreiðslu sem var í lögunum hefur það ekki dugað okkur nægjanlega til þess að sú aukning yrði sem menn ætluðu þegar lögunum var breytt 31. desember 2006 þar sem þetta gjald var hækkað úr 12% í 14%. Nú er verið að taka stærra skref enda er allur markaðurinn á Íslandi orðinn miklu þroskaðri. Hér er Kvikmyndaskólinn, það er til margt iðnmenntað fólk sem getur tekið að sér hin ólíkustu verkefni og verktakar sem þar geta komið að. Það er til meira af hvers konar tæknibúnaði þannig að við höfum verið að undirbúa okkur virkilega vel undir það að taka við aukningu hvað þetta varðar.

Á undangengnum árum hefur landsbyggðin verið að byggja upp aðstöðu, hótelaðstöðu, nefna má Ferðaþjónustu bænda í því sambandi, sem getur auðveldlega tekið við stórum hópum og sinnt svona verkefnum og þetta yrði mikil búbót, sérstaklega ef þetta yrði utan hefðbundins ferðamannatíma sem er miðsumarið á Íslandi, það er mikil búbót þegar um er að ræða verkefni sem falla utan þess hefðbundna ferðamannatíma.

Nú reyna menn að átta sig á því, frú forseti, hvaða áhrif sú kreppa sem við annars vegar búum við núna og hins vegar kreppan á heimsvísu hefur hugsanlega á kvikmyndagerð í það heila tekið. Það er hlutur sem ég treysti mér ekki til að svara úr þessum ræðustól núna en það er áreiðanlegt að staða íslensku krónunnar ætti að vera hvati auk þess sem hérna er verið að auka endurgreiðsluhlutfall. Það ætti að vera hvati fyrir erlenda aðila að koma til Íslands þar sem það er ódýrara að starfa hér og búa með stórt tökulið. Það má því ætla að þær aðstæður sem eru bæði hér á landi og í umheiminum verði til þess að auka enn frekar áhuga þessara aðila, þessarar iðngreinar á því að koma til Íslands og taka upp hvers konar kvikmyndir, myndbönd, auglýsingar, fræðsluefni og hvaðeina. Ég held að það sé augljóst að við munum njóta þess og að þarna geti verið sóknarfæri sem við eigum auðvitað að nýta okkur við þær aðstæður sem uppi eru í landinu núna.

Ég nefndi það áður, frú forseti, að önnur lönd eru að feta sig í sömu átt með endurgreiðslu og það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að Norðmenn hafi áform um að ráðast í tilraunaverkefni sem er líkt því styrkjakerfi sem þekkt er erlendis og við erum að koma hér á. Í því tilliti er talað um að Norðmenn séu að huga að 15% endurgreiðslu. Þannig er þetta svolítið mismunandi. Jafnframt segir í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Í ýmsum fylkjum í Bandaríkjunum, á Nýja-Sjálandi og Nýfundnalandi, svo að dæmi séu tekin, eru ívilnanakerfi þar sem endurgreiðsluhlutfallið er hátt eða á bilinu 15–55%. Kerfin eru þó mismunandi, m.a. hvað skilyrði fyrir endurgreiðslu varðar. Þar sem Ísland er aðili að EES-samningnum og bundið af þeim reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um ríkisstyrki er ekki raunhæft að Ísland geti keppt við sum þessara kerfa.“

Við þurfum að hafa í huga að það er mikil samkeppni á heimsvísu hvað þennan iðnað varðar. Við verðum því með ýmsum öðrum hætti hugsanlega en bara með því lagafrumvarpi sem hér um ræðir að koma til móts við þá aðila sem hafa hug á að koma til Íslands til að taka upp hvers konar myndefni og við þurfum að vera sívakandi yfir því hvað megi gera betur. Eins og ég hef áður sagt er ljóst að við höfum verið að feta skrefið frá því að byrjað var að endurgreiða ákveðið hlutfall af kostnaði og nú er verið að ræða um að fara upp í 20% af þeim kostnaði sem um ræðir. Ég held að þetta sé í réttum farvegi og við séum að feta okkur rétta leið. Þetta hefur verið gert á undangengnum árum, þetta er ekki að koma sem eitthvert kosningaloforð vegna þess að það eru kosningar á Íslandi í vor, heldur er þetta langur undirbúningur. Menn eru að vinna og búa í haginn fyrir þessa atvinnugrein á löngum tíma og það á að skila sér. Við eigum að hugsa þetta verkefni rétt eins og landgræðslu- eða skógræktarverkefni, þetta tekur langan tíma og þá munum við ná árangri.