136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[21:44]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er magnað og spennandi mál sem hér er til umræðu, það er ekki bara fortíðin heldur framtíðin líka. Það skiptir miklu máli að missa ekki af lestinni í þeim möguleikum sem eru til listrænnar sköpunar á vettvangi kvikmyndanna, á vettvangi sögunnar og ekki síst til atvinnusköpunar. Þetta eru allt lykilatriði sem fylgja þarf eftir og hugsa vel um.

Eins og hér hefur komið fram hafa nokkur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu nýtt sér reglur og sett reglur um styrki vegna kvikmyndaframleiðslu. Það er nokkuð mismunandi á milli landa og byggist ugglaust mest á því hve mikinn metnað menn hafa í þessum efnum og hve mörg sóknarfæri þeir sjá. Við Íslendingar höfum oft verið aftarlega á merinni hvað það varðar að nýta tækifæri líðandi stundar, tækifæri nýrrar þróunar, tækifæri nýrrar stefnu sem ryður sér rúms í fjölnotamenningu og mikilli ásókn í allt er lýtur að tækniefnum á þeim vettvangi.

Það hefur til að mynda komið fram að á Írlandi er miðað við 28% endurgreiðslu af tilföllnum kostnaði. Við erum að tala hér um 20% en við eigum auðvitað að ganga eins langt og við getum í þessum efnum án þess þó að vera að borga með verkefnunum. Það er engin spurning að á meðan verið er að vinna stöðu á þessum vettvangi, alþjóðlega stöðu hvað varðar hina mörgu möguleika sem Ísland býður upp á fyrir auga kvikmyndavélarinnar, þurfum við að gæta þess að ganga heldur nær strikinu en skemur. Það er mín skoðun að það væri ekki óhyggilegt að miða þennan afslátt við u.þ.b. 25% og leggja þannig áherslu á að við viljum í fullri alvöru freista þess að ná mörgum af snillingum kvikmyndaheimsins til Íslands, ná þeim hingað heim til þess að virkja þá og nýta.

Menn hafa talið hér upp dæmi um það sem Ísland hefur upp á að bjóða, að oft sé það svipað og í öðrum löndum sem bjóða upp á svipaðar aðstæður og finnast hér — snjó, jökla, túnin græn, dali, mikla víðáttu án þess að mannvirki séu í bakgrunni, fossa, vötn, firði, svarta sanda og að ég tali nú ekki um Rauðasand sem er einn af gullperlum Evrópu svo að eitthvað sé nefnt. En það hefur enginn fjallað um það mesta og mikilvægasta sem Ísland hefur upp á að bjóða varðandi listræna og áhrifamikla kvikmyndagerð og það er birtan á Íslandi, það er birtan sem speglast við bjarg og sand, birtan sem er síbreytileg frá einni mínútu til annarrar og gefur ótrúlega möguleika við gerð lifandi kvikmyndar.

Það eru allmörg ár síðan til stóð að gera hér mikla stórmynd, Enemy Mine, og farið var að vinna við gerð þeirrar myndar hér á landi, nánar tiltekið úti í Vestmannaeyjum. Þar unnu erlendir kvikmyndagerðarmenn í tvo mánuði við undirbúning. Aðalverkefni þeirra, það sem þeim fannst mikilvægast og forvitnilegast, var birtan. Þeir þurftu að eyða mörgum vikum í að ná tökum á birtunni og birtuspilinu. Þetta undirstrikar að það leynist margt í okkar ranni sem kann að vera verðmætt og það er þess virði að styrkja öll aðföng og allar leiðir til þess að nýta þessa möguleika til atvinnusköpunar og fjárfestingar á Íslandi. Ekki varð af þeirri myndatöku sem ég nefndi af fjárhagslegum ástæðum erlendis en engu að síður var þessi undirbúningur unninn.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson velti því fyrir sér hve mikil áhrif kreppan hefði á gerð kvikmynda á alþjóðamarkaði. Kreppu fylgja leiðindi, kreppu fylgir súrt yfirbragð. Það er ugglaust það sem hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur verið að hugsa um, að menn þyrftu að huga að því hvað væri til ráða til að vinna gegn áhrifum kreppunnar á þessa alþjóðlegu listgrein — og ekki hvað síst hvort það mundi raska eitthvað þeim áformum sem hér eru um að reyna að opna dyrnar fyrir kvikmyndagerðarmenn að Íslandi.

Reynslan sýnir að í kreppu bregst fólk við á ákveðinn hátt. Það bregst við með því að klæða sig betur, að reyna að skemmta sér meira, þó að allt sé það í hófi, og þetta er ekkert nýtt af nálinni. Ég man að ég heyrði þetta, virðulegi forseti, fyrst af vörum skólastjóra míns og kennara, dr. Brodda Jóhannessonar sálfræðings, í Kennaraskóla Íslands. Hann lagði einmitt ríka áherslu á það hvernig mannskepnan brygðist við þegar áhrifin væru neikvæð og umhverfið svona hraglandi eða myglingur eins og þeir mundi segja í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta eru hlutir sem við skulum reyna að nýta. Við skulum reyna að nýta þessa reynslu. Og kvikmyndin er ekki bara listrænt form, hún er kannski fyrst og fremst skemmtiform, form til að skemmta fólki, létta því stundir, byggja það upp, slaka því frá nöprum kreppuveruleika og lyfta því í hæðir, gera gott úr stund og stað svo að menn njóti þess að vera til án þess að vera fastir í súrskyrinu.

Þetta er verðugt verkefni að vinna að og það er þess vegna bráðgott mál sem hér er til umræðu, að hliðra til fyrir kvikmyndagerðarmenn, sem gæti laðað þá hingað. Ég held að það sé mjög mikilvægt að breyta þessu frumvarpi á þann veg að hlutfallið fari í a.m.k. 25% til þess að vera nær þeim sem best bjóða. Það á ekki að þýða neinn útlagðan kostnað fyrir Ísland en mundi skapa atvinnu á Íslandi, auglýsingu fyrir Ísland, og í nánast öllum tilvikum slíkrar myndgerðar yrði það jákvæð auglýsing. Við þurfum ugglaust frekar á því að halda en hitt að styrkja ímynd Íslands og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Um leið og það er gert er það fyrst og fremst markaðssetning á landinu sjálfu, markaðssetning á því sem við bjóðum upp á, á því sem við framleiðum og seljum til að afla gjaldeyris og til þess að lifa í samfélagi sem við höfum myndað okkur ákveðinn ramma um og viljum gjarnan vernda af alefli. Það er því mjög mikilvægt að fylgja þessu máli fast eftir.

Bent hefur verið á að um nokkurt skeið hafi Norðmenn áformað að ráðast í tilraunaverkefni af hálfu norska ríkisins sem feli í sér styrkjakerfi í þessum efnum fyrir erlenda kvikmyndaframleiðslu og þar er áætlað að styrkurinn verði 15%. Það kemur svo sem ekkert á óvart að Norðmenn skeri frekar við nögl en hitt því að með allri virðingu fyrir Norðmönnum þá eru þeir náttúrlega svo nísk þjóð að þeir trúa ekki einu sinni á líf fyrir dauðann. Við getum ómögulega miðað okkur við þessa vænu frændur okkar í Noregi, Norðmenn, sem hýsa stærsta framsóknarflokk í heimi. (Gripið fram í.)

Ég held að við þurfum að teikna þetta svolítið lipurlega og glaðlega upp. Við þurfum að bjóða upp á hluti sem (Gripið fram í.) — já, nú gengur hv. þm. James Bond, Grétar Mar Jónsson, í salinn, þó að sumir hefðu frekar haldið að þar færi maður sem gæti með mikilli reisn leikið hlutverk Goldfingers. (Gripið fram í.) Þetta er nú allt af hinu góða og sýnir hve breiddin er mikil og oft getur það snúið upp sem snýr niður með stuttum fyrirvara.

Það er mjög mikilvægt að við fylgjum þessu vel eftir og skipulega. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa gert garðinn frægan. Þó að við flöskum stundum á því, Íslendingar, að halda að við séum stórþjóð eigum við að vera vakandi yfir því þegar okkar bestu menn í ýmsum þáttum gera verulega góða hluti á alþjóðavettvangi. Það hafa íslenskir kvikmyndagerðarmenn gert, bæði í gerð leikinna mynda og heimildarmynda og ekki síst á vettvangi heimildarmynda.

Auðvitað ræður þar nokkru að þar eru náttúrubörn á ferðinni, snjallir kvikmyndagerðarmenn sem hafa auga fyrir náttúrunni, sem eru hluti af náttúrunni og kunna að lifa í takti við hana í einu og öllu. Stundum veit maður ekki hvort þeir eru menn, fugl eða blóm. Gott dæmi um slíkan kvikmyndagerðarmann er Páll Steingrímsson sem hefur gert margar afburðamyndir með góðum kvikmyndagerðarmönnum eins og til að mynda Friðþjófi Helgasyni. Þetta eru verðmæti, þessir menn er sagnaritarar nútímans, þeir eru Snorri Sturluson okkar tíma, og við eigum að skilja það og meta það og styrkja framgang þeirra á þeim vettvangi þar sem þeir hafa sýnt að úr miklu er að moða. Við eigum líka að vera hvetjandi fyrir unga fólkið okkar sem er vítt og breitt um heiminn að nema kvikmyndagerðarlist og getur þá komið sér í færi og sambönd við þekkta kvikmyndagerðarmenn erlendis þannig að ný reynsla og gömul geti hljómað saman.