136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega gallinn við þá umræðu sem hér á sér stað og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi að stuðningsmenn málsins og þeir sem flytja það hér fram eru ekki við umræðuna. Þeim bregður hér fyrir öðru hverju þar sem þeir skjótast inn í salinn til að hreyta einhverjum ónotum í okkur sjálfstæðismenn, eru með frammíköll, ómálefnaleg frammíköll sem eru frekar til þess fallin að reyna að fipa þann ræðumann sem hér stendur hverju sinni en að leggja eitthvað gott til málanna.

Fulltrúar stjórnarminnihlutans væru mun sæmdari af því að koma í þingsalinn og ræða þau mál sem þeir hyggjast leggja til grundvallar á næstu dögum í þinginu, þessi brýnu hagsmunamál heimila og fyrirtækja í landinu. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, og ég hygg að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafi tekið undir, er einn helsti gallinn við þá ríkisstjórn sem starfar í landinu núna — og það sést á dagskrá fundarins hér í kvöld, að þótt þar sé 21 mál á dagskrá tekur nánast ekkert þeirra á þeim brýnu vandamálum sem fólkið í landinu bíður eftir að verði leyst.

Á meðan sú staðreynd blasir við standa þeir hér kapparnir og stunda frammíköll, frú forseti.