136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér hefur mikið verið rætt í dag og kvöld er á allan hátt hið merkilegasta og vekur upp ýmsar minningar hjá manni, bæði sárar og skemmtilegar, en ég skal viðurkenna í ljósi þeirra orða sem hér hafa verið flutt af miklu hyggjuviti að þetta hefur kannski vakið upp hjá manni efasemdir um að sú afstaða sem maður hafði hér við atkvæðagreiðsluna í gær væri hin eina rétta. Þegar maður heyrir og hlýðir á lýsingar þingmanna á þeim mikilsverðu verkefnum sem bíða úrlausnar er í sjálfu sér kannski ekki óeðlilegt þótt maður hugsi öðruvísi um hlutina.

Ég er þó ekki búinn að gefa það eftir að halda í þessa afstöðu mína og mér var áðan bent á að þetta væri kannski í rauninni ekki annað en eftirgjöf á ákveðnum sköttum sem ríkissjóður fengi af þessum verkefnum. Hitt er annað, að afleiddi ábatinn af kvikmyndagerðinni er gríðarlega mikill og hér voru nefnd fyrr í kvöld í ræðum áhrifin á t.d. ferðaþjónustu, myndataka af landslagi sem fer síðan í kvikmyndir sem sýndar eru um víða veröld — (ÓN: Norðausturkjördæmi.) Úr Norðausturkjördæmi sérstaklega, var þá nefnt, ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna, gríðarlega fallegt umhverfi þar og náttúra og rík kvikmyndahefð. Ég minnist þess t.d. þegar ég var ungur drengur og sótti kvikmyndasýningar í Dalvíkurbíói þar sem Hjalti heitinn Þorsteinsson sýndi kvikmyndir og Stefán Jónsson. Þar vorum við ungir krakkar oft og tíðum á sunnudögum að koma til sýninga og horfðum þar á Roy Rogers og Tarzan, gríðarlega skemmtileg verkefni. Ég átti að vísu við það mein að stríða að — (KÓ: Voru það fyrirmyndirnar?) Það voru fyrirmyndir í gamla daga, já, ég skal viðurkenna það, hv. þm. Kjartan Ólafsson, að þetta sótti maður í og svo lékum við þessar myndir út vikuna þar til næsta sýning fór fram. Þetta var mjög þroskandi og gott, ég efast ekki um að þetta gæti styrkt margan ungan og efnilegan Íslendinginn í uppvextinum, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hafa 59 verkefni fengið stuðning á þeim tíma sem þessir styrkir hafa verið veittir. Stuðningurinn er 980 millj. kr. þannig að hér er vissulega um gríðarlega mikil verkefni að ræða sem sótt er í af alls kyns fólki sem byggir upp atvinnu og vöxt í kringum sig. Því ber að fagna.

Aftur að kvikmyndasýningunum frá því í gamla daga. Það eru kannski ekki svo mjög mörg ár, ekki nema rúmir fjórir áratugir — (ÓN: Öll mín ævi.) Öll ævi sumra hv. þingmanna, og enn lifir þetta svo ljóslega í minningunni þannig að ég tel að það mál sem hér er lagt af stað með eigi örugglega eftir að ylja mörgum einstaklingum um hjartarætur þegar fram líða stundir og menn sjá þau verkefni sem munu njóta góðs af þessum efnum.

Ég vek þó athygli hv. þingmanna á því sem undir þessari umræðu sitja að ekkert samasemmerki er á milli þess að hækka endurgreiðsluna og að erlendum verkefnum fjölgi. Reynslan af hækkun endurgreiðslunnar úr 12% í 14% í lok ársins 2006 var sú að ekkert nýtt verkefni kom. Það kann vel að vera að hækkun úr 14% í 20% kunni að skila einhverjum verkefnum. Menn horfa sérstaklega á eitthvert eitt tiltekið stórt kvikmyndaverk og Ísland keppir þar við einhver önnur samanburðar- eða samkeppnislönd og hefur (Gripið fram í.) Írland verið nefnt í því efni. Þá segi ég fullum fetum: Af hverju skoða menn ekki að ganga aðeins lengra og stúta þá samkeppnislöndunum með enn hærri endurgreiðslu? Ég skora á þá þingmenn, sem vilja ganga þennan veg, að ljá þá máls á því. Ef meiri hluti á Alþingi, eins og virtist vera í atkvæðagreiðslunni í gær, er fyrir því að slá lán út á framtíðarskattgreiðendur til að styðja verkefni sem þessi munar ekki um einn kepp í sláturtíðinni. Þetta eru ekki margar milljónir í viðbót sem þyrfti að bæta við þessa lántöku ef menn vilja ganga veginn til enda og slá við samkeppnislöndum Íslands um þessi góðu gildu verkefni.

Ég hef byggt afstöðu mína á þeim fyrirvara sem ég hef reynt að vera trúr í fjárlaganefnd þar sem ég á sæti (Forseti hringir.) við fjárlagagerð og hyggst halda því áfram að öllu óbreyttu.