136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:43]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við höldum hér áfram að ræða frumvarp um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ég hef hlustað á þessa umræðu hér í kvöld og heyri ekki annað en að menn séu nánast allir hlynntir frumvarpinu. Fólk er auðvitað að tjá sig um málið og á því eru margar hliðar, en útilokað er að koma hér upp og nefna ekki að hér hafa komið í dyr alþingissalarins hæstv. fjármálaráðherra og þingflokksformaður Samfylkingarinnar, eins og áðan þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var að tala, með frammíköll og gaspur, ómálefnalegt, einvörðungu til að skemma þá umræðu sem hér er. Ég skora á þessa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að koma í þingsal og tala í þessu máli, fara yfir hvað þeir vilja og hvaða sýn þeir hafa. Við erum að skoða og fara yfir dagskrá þessa þingfundar og það er sáralítið sem varðar gjaldeyrisöflun þjóðarinnar eða atvinnumálin á dagskránni. Þetta eru brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar, að tefja með frammíköllum í svona málum. (Gripið fram í.)

Það er ótrúlegt mál, (Gripið fram í.) hér erum við að tala um — nú, hér kemur einn gasprarinn í viðbót, hv. þm. Atli Gíslason. Ég held að hv. þingmaður ætti bara að biðja um orðið og ræða málið á málefnalegan hátt og fara yfir það.

Við erum að reyna að hleypa að öllum góðum málum, sem við teljum að séu atvinnuskapandi og gjaldeyrisskapandi, og við erum að ræða þau mál hér. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þá tali þessir stjórnarliðar í málunum og leyfi þeim þingmönnum að tala sem hafa áhuga og vilja koma skoðunum sínum á framfæri á jákvæðan hátt. Það er öðruvísi en þegar hér voru vinstri grænir í hverri klukkutímaræðunni, 3–4 klukkutíma, það var málþóf, alltaf á móti öllum málum, sama hvað málið snerist um, þeir voru alltaf á móti öllu. Það er málþóf.

Ég vil segja, frú forseti, að það eru örfá atriði sem ég kom ekki að í fyrri ræðu minni sem ég vildi nefna, sem skipta máli varðandi einmitt þetta litla frumvarp og sýna hvaða áhrif það getur haft á jákvæðan hátt, ýmis hliðaráhrif af þeim verkefnum sem við erum að reyna að laða til landsins.

Ferðaþjónustan í það heila tekið, ég nefndi hana áðan, Ferðaþjónusta bænda sem staðsett er vítt og breitt um landið hefur þarna gríðarleg sóknarfæri og möguleika, bæði í gistiaðstöðu og sölu á mat, hestaleigur hafa verið notaðar við kvikmyndatökur, flutningur á þessum gripum, það eru bílaleigubílar og rútur. Svo ótal margt tengist kvikmyndagerðinni sem við sjáum ekki í fljótu bragði og þess vegna erum við að færa inn í landið verðmætasköpun, atvinnu og fjármuni. Ég minnist þess að þegar tekin var mynd á Jökulsárlóni fluttu tveir trukkar grenitré frá Hallormsstað þangað og þeim var nánast plantað í ísinn á Jökulsárlóni til að búa til skóg á tilteknu svæði. Fyrir þetta var auðvitað greitt, fyrir að fella trén og koma þeim á staðinn, þetta eru allt umsvif og margföldunaráhrif sem koma inn í kvikmyndagerðina. Þess vegna eigum við að leggja mikla áherslu á það og ég er í rauninni hissa á að þeir aðilar sem mest hafa talað á móti stóriðju og orkufrekum iðnaði skuli ekki reyna að slá sér upp á því að tala um þennan atvinnuveg og reyna að fylgja því fast eftir að þessi mál fái umræðu og tíma á jákvæðan hátt á þinginu.

Ég legg að lokum til, frú forseti, að þetta frumvarp verði samþykkt.