136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja aðeins frekar orð í belg varðandi það ágæta mál sem við ræðum hér og höfum rætt í kvöld. Fjölmargar afar athyglisverðar ræður hafa verið fluttar og margt mjög fróðlegt komið fram og margt skýrst í þessu máli.

Mig langar aðeins að ræða það sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, um að hvorki sé gert ráð fyrir þeim auknu útgjöldum, sem ég ræddi um í fyrri ræðu minni, 32 millj. kr., í fjárlögum ársins 2009 né í ætluðum útgjöldum næstu fjögur árin og hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni, sem ég get vel skilið og að mörgu leyti tekið undir vegna þess að það getur hljómað ankannalega að greitt sé fyrir atvinnusköpun með lántökum. Það segir sem sagt í kostnaðarmatinu að vegna mikils halla á ríkissjóði muni að óbreyttu þurfa að fjármagna viðbótarútgjöld með lántökum.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá þingmanninum áðan að þetta er ekki gott og það er kannski það verkefni sem fyrir okkur þingmönnum liggur fyrst og síðast að snúa þessum halla í afgang, það er stóra verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Einmitt af þessari ástæðu skrifuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, hv. þingmenn Björk Guðjónsdóttir, Herdís Þórðardóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, undir nefndarálitið með fyrirvara. Vikið er að þessu atriði í nefndarálitinu og þar segir að orðalagið sé talið óheppilegt vegna þess að það gefi til kynna að reiknað sé með halla á ríkissjóði vegna endurgreiðslanna en ekki sé rétt að líta á endurgreiðslurnar eingöngu sem viðbótarútgjöld. Miðað við það ferli sem rakið er í nefndarálitinu ætti ríkissjóður að hafa fengið til sín stærstan hluta skattteknanna vegna framleiðslunnar þegar til útborgunar kemur.

Það var á þeim forsendum sem ég var að rekja að þær stöllur, fyrrnefndir sjálfstæðismenn í iðnaðarnefnd, töldu sig geta stutt þetta frumvarp þrátt fyrir þann augljósa annmarka sem þarna hefur verið bent á varðandi lántökurnar. Ég get tekið undir þessi sjónarmið og tel að þetta sé, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, réttlætanlegt vegna þeirrar atvinnusköpunar, verðmætasköpunar og þekkingarsköpunar sem frumvarpið getur haft í för með sér.

Hv. þm. Björk Guðjónsdóttir rakti í ræðu sinni hér á undan afar gott dæmi um Latabæ. Ég get tek undir það af heilum hug með þingmanninum vegna þess að það er dæmi um verkefni sem hefur notið þessara endurgreiðslna. Ég leyfi mér að fullyrða að sá ábati sem ríkissjóður og þar með þjóðin hefur haft af því verkefni er margfalt meiri en sá kostnaður og endurgreiðslur sem hafa verið greiddar úr ríkissjóði. Vegna þess að þetta er ekki bara þáttagerðin sjálf heldur öll sú atvinnusköpun sem fylgir í kjölfarið, allir þeir sérfræðingar, allir þeir hugmyndaríku og frjóu einstaklingar sem hafa komið að því verkefni og þarna sést nákvæmlega hve góður ábati getur verið af þessu (Forseti hringir.) fína verkefni sem ég styð heils hugar.