136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[23:20]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Kvikmyndir eru galdur þegar gætt er að. Það skiptir miklu máli að leggja rækt við þennan nýja þátt heimsmenningarinnar sem er vart nema um 100 ára gamall. Við eigum marga snillinga hérlendis í kvikmyndaiðninni og með því að létta gjöldum jafnt af framleiðslu stórkvikmynda sem smárra á Íslandi erum við að styrkja nýtingu og þekkingu þessa fólks, vilja og hugsjón og skapa því aukin tækifæri. Ég nefndi fyrr í ræðu minni í kvöld Pál Steingrímsson og Friðþjóf Helgason. Það má, með leyfi forseta, nefna Baltasar Kormák, Friðrik Þór Friðriksson, Hilmar Oddsson, Ara Kristinsson, Guðnýju Halldórsdóttur, Kristínu Jóhannesdóttur, Hrafn Gunnlaugsson, Dag Kára, Óskar Jónasson, Ragnar Bragason, Ágúst Guðmundsson, Þráin Bertelsson, Ólaf Jóhannesson, Ásdísi Thoroddsen og Silju Hauksdóttur. Þetta eru allt snillingar sem við þurfum að hlúa að og huga að og skapa meiri möguleika til framtíðar til að nýta þekkingu þeirra og hugmyndaflug.

Við eigum margt ógert í kvikmyndum á Íslandi. Náttúran er perlufestin okkar sem við erum kannski hvað stoltust af. Það var ekki hugsað um náttúruna nema að takmörkuðu leyti á tímum ritunar Snorra-Eddu, Njáls sögu, Skáld-Helga sögu og fleiri snilldarbókmennta sögunnar.

Við horfum svolítið á náttúruna eins og Grænlendingar horfa á veðrið, þeir spá aldrei í veðrið vegna þess að það kemur hvort eð er. Þannig hefur okkar íslenska náttúra verið, hún er þarna hvort sem er.

En nú horfa menn til hennar öðrum augum, til nýtingar inn í nýja tækni og nýja möguleika kvikmyndagerðarinnar. Og það er margt óunnið í þessum efnum, sögulega, náttúrulega, og tækifærin eru við hvert fótmál. Hugsum okkur til að mynda Skagafjörðinn með kvöldsettu sólsetri þar sem í Drangey blundar fugl við brún og blóðrauð sólin tinar. Kvikmynd um þetta dýrlega svæði gæti byrjað með þessu erindi, virðulegi forseti:

— Bababamm bababamm bababamm bamm bamm. —

Það var kátt hérna um laugardagskvöldið á Gili,

það kvað við öll sveitin af dansi og spili,

það var hó! það var hopp! það var hæ!

Hann Hofs-Láki, æringi austan af landi

úti í túnfæti dragspilið þandi,

hæ, dúddelí, dúddelí, dúddelí, dæ!

Það yrði ekki leiðinleg kvikmynd sem hæfist á þessu erindi. Þannig liggja möguleikarnir í ótal áttir. Það er okkar hlutverk að horfa til nýrra möguleika á nýjum tímum, ekki síst erfiðum tímum. Nýja í Suðurgarði sem ól mig upp sagði gjarnan: Berðu þig þeim mun betur sem verr gengur. Og þannig munum við standa af okkur brælurnar, gera gott úr þeim, sigla inn í framtíðina vegna þess að léttleikinn er lífsspursmál tilverunnar, lykillinn að tilverunni, léttleikinn sem er sá möguleiki sem kvikmyndin á svo gott með að fanga og spila úr, virðulegi forseti. Við skulum líta þetta jákvæðum og skemmtilegum augum og gæta þess að hita upp og tryggja möguleikana sem eru fyrir hendi.