136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég furða mig á ummælum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Ég hef ekki langa þingreynslu en aldrei hef ég orðið vitni að þessu og ekki heldur áður en ég kom hingað. Þessi hv. þingmaður kennir sig við umræðupólitík ef ég man rétt. Hún taldi upp einhver mikilvæg mál sem eru til umræðu, en það er líka hægt að benda hér á mikilvægt málefnaval Samfylkingar og Vinstri grænna, eins og um visthönnun vöru sem notar orku og lífsýnasöfn og listamannalaun og fleira sem er á þessum lista og er greinilega mikilvægara en hagur heimilanna og atvinnulífsins.

Ekki er nú mikill áhugi stjórnarþingmanna á þessari umræðu hér. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir er, að undanskildum hæstv. forseta, eini þingmaður stjórnarflokkanna sem situr í salnum. (Gripið fram í: Neyðist til að vera hérna.) Neyðist til að vera hérna og er farin að ausa úr skálum reiði sinnar með svívirðingum yfir þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem taka þátt í umræðum. (Gripið fram í.) Það er alveg með ólíkindum að láta sér detta þetta í hug.