136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:16]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að við getum haldið áfram þessari umræðu og farið að vinna okkur niður málalistann, sem er brýnn. Við erum hér í 3. umr. og ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum, og ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá iðnaðarnefnd.

Í 2. umr. um málið komu upp efasemdir hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur sem olli því að hún kallaði málið inn til nefndar milli umræðna. Ég tel að það hafi verið á ákveðnum misskilningi byggt og var ákveðið af nefndinni að málið yrði skýrt í nefndaráliti. Það er gott að við skyldum gera það vegna þess að þá liggur það líka fyrir að þetta mál á ekki að leiða til þess að beinar niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar verði skertar, þ.e. til notendanna sjálfra, heldur er eingöngu verið að taka úr potti sem lýtur að öðrum málum eins og ég mun gera grein fyrir hér. Ég geri nú grein fyrir nefndarálitinu, virðulegi forseti.

Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um málið að nýju.

Nefndin ræddi sérstaklega þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að hlutfallið sem varið skuli til orkusparnaðaraðgerða verði hækkað úr 1% í 3%.

Nefndin áréttar að í frumvarpinu er, eins og fram kemur í athugasemdum við það, lagt til að afnema takmörkun á hámarki niðurgreiðslna vegna raforkunotkunar á varmadælur til húshitunar, gera mögulegt að styrkja breytta orkuöflun til húshitunar og styrkja endurbætur á íbúðarhúsnæði á köldum svæðum.

Samkvæmt lögum nr. 78/2002 njóta niðurgreiðslur á húshitun forgangs þegar kemur að ráðstöfun þeirrar heildarfjárveitingar sem ákveðin er í fjárlögum hverju sinni til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði, stofnstyrkja til nýrra hitaveitna, jarðhitaleitar og annarra verkefna sem kveðið er á um í lögunum. Í lögunum er kveðið á um hverjir geti notið niðurgreiðslna og ekkert hámark sett á hversu stórt hlutfall heildarfjárveitingarinnar má renna til að greiða niður húshitunarkostnað, utan þess að 1% af heildarfjárveitingunni skal fara til orkusparnaðaraðgerða. Þessu til viðbótar er í lögunum að finna heimildarákvæði um að auk þess að veita fé til niðurgreiðslna á húshitun og orkusparnaðaraðgerða sé heimilt að veita að hámarki 20% af heildarfjárveitingunni til stofnstyrkja vegna nýrra hitaveitna og að hámarki 5% af heildarfjárveitingunni til jarðhitaleitar. Þessar heimildir hafa verið nýttar á undanförnum árum og hluta heildarfjárveitingarinnar því verið varið til þessara verkefna, en í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að á undanförnum árum hafa stjórnvöld greitt út um 1.000 millj. kr. vegna styrkja til nýrra hitaveitna og að alls hafa um 2.000 íbúðir farið af rafhitun og yfir á hitaveitu. — Þannig að margt hefur gerst virðulegi forseti í þessum efnum á undanförnum árum.

Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu voru fyrir árið 2009 veittar 1.176 millj. kr. í fjárlögum á lið 11-373. Miðað við þá fjárhæð má gera ráð fyrir að verði hlutfall vegna orkusparnaðaraðgerða hækkað úr 1% í 3% kunni framlög til þeirra að hækka úr 12 millj. kr. í 35 millj. kr. Á móti þessari hækkun kemur að verkefnum um hagkvæmnisúttekt á varmadælum og smávirkjunum er lokið, en til þeirra fóru árlega 10 millj. kr. af heildarfjárveitingunni. Þá verður kostnaði vegna þess að framlag til orkusparnaðaraðgerða er hækkað úr 1% í 3% mætt með því að minna fé fer í stofnstyrki til nýrra hitaveitna og jarðhitaleitar og því sem upp á vantar mætt með því að minna fé fer í stofnstyrki til nýrra hitaveitna og jarðhitaleitar. Því mun ekki koma til lækkunar á beinum niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar í tengslum við breytingarnar. Nefndin áréttar að breytingin hefur engin áhrif á rafmagnsreikninga þeirra heimila sem eru með rafhitun.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt en undir nefndarálitið rita sú er hér stendur og hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir, Herdís Þórðardóttir, Kristján Þór Júlíusson, Björk Guðjónsdóttir og Grétar Mar Jónsson.

Ég vona, virðulegi forseti, og held að þetta hafi skýrt málið og það er jákvætt að við höfum fengið tækifæri til þess í framhaldsnefndaráliti.