136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:21]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þetta framhaldsnefndarálit sem skýrir vissulega töluvert það sem við ræddum hér við 2. umr. Ég sé að nefndin hefur alla vega talið, eftir þá umræðu sem hér átti sér stað, ástæðu til þess að gera viðamikið framhaldsnefndarálit sem sýnir að þetta var engan veginn nægilega vel skýrt í fyrra nefndarálitinu. Framhaldsnefndarálitið skýrir málið og kostnaðargreininguna á þessu mun betur. Þakka ber fyrir það að nefndin skyldi leggja í þessa vinnu og koma með þessar upplýsingar í framhaldsnefndaráliti.

Ég vil spyrja hv. formann iðnaðarnefndar í framhaldi af þessu, af því að hér kemur fram að gerð hafi verið hagkvæmnisúttekt á varmadælum og smávirkjunum, hvort nefndin hafi kannað hvað hafi komið út úr þeim úttektum. Eru verulegir möguleikar á því að hægt sé að lækka hitunarkostnað heimila með nýrri tækni í varmadælum? Eru í þessum smávirkjunum, sem úttekt var gerð á, verulegir möguleikar í orkuframleiðslu þá bæði (Forseti hringir.) inn á landsnetið og til einstakra (Forseti hringir.) bæja og sveitarfélaga?