136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:28]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók þátt í umræðu um frumvarpið fyrst hér á þessu þingi og kom ég fram með fyrirspurn til hæstv. formanns nefndarinnar, Katrínar Júlíusdóttur, varðandi raforkuniðurgreiðslu til grænnar stóriðju, til garðyrkjubænda.

Ég vitnaði í bréf frá Bláskógabyggð þar að lútandi og ég man ekki betur en það hafi komið fram í svari hv. formanns nefndarinnar að til stæði að kalla þá aðila til fundar í iðnaðarnefnd, það stæði ekkert á henni með það. Ég tók eftir því í dag, í ræðu hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, að hann taldi einboðið og sjálfsagt að niðurgreiðsla á raforku til þessara aðila yrði aukin.

Nú er spurningin: Hvers vegna sér þess ekki stað í þessu nefndaráliti?