136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:29]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfalt að svara því hvers vegna þess sér ekki stað í þessu nefndaráliti. Það er vegna þess að frumvarpið fjallar um niðurgreiðslu til húshitunarkostnaðar og orkusparandi aðgerða, þ.e. hækkun á því hlutfalli.

Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að ég hafi tekið vel í það að við héldum fundi. En ég get svo sem sagt það aftur sem ég sagði þá við hv. þingmann að við hefðum kallað til þá orkusöluaðila sem höfðu hækkað gjaldskrá sína. Við höfum nú þegar kallað þá á fund iðnaðarnefndar og ég held að það hafi verið — þið verðið að afsaka þó ég muni það ekki nákvæmlega, en mig minnir að það hafi verið í byrjun febrúar sem það hafi verið gert. Ég er sannfærð um, og ég sagði það við hv. þingmann, að þessi vinna, þessi skoðun nefndarinnar á verðlagsmálum í raforkunni, verði að halda áfram. En ég gat ekki lofað honum því að við næðum því fyrir þinglok og við það held ég, virðulegi forseti.