136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að mótmæla þessari flokksræðishugsun sem hv. þingmaður er haldinn. Ég er hér sem þingmaður en ekki sem einhvers konar flokksþjónustuaðili eða eitthvað slíkt. (Gripið fram í: Þú ert nú kosinn af flokknum.) Nei, ég er kosinn af kjósendum. (Gripið fram í: Ráðherraefni flokksins.) Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir en fyrst þurfum við náttúrlega að komast í stjórn en kannski verður það.

Ég mótmæli því að ég geti ekki haft mína skoðun enda á ég að hafa hana samkvæmt stjórnarskránni. Mig langar að spyrja hv. þingmann, fyrst hann tók ekki tillit til þess sem rætt var hér í 2. umr., hvort hann viti hversu mörg heimili njóta niðurgreiðslu í dag svo ég geti reiknað út hve mikil niðurgreiðslan er á hvert heimili.

Það sýnir sig að þrátt fyrir niðurgreiðsluna hefur raforkan hækkað og hækkað langt umfram vísitölu og þrátt fyrir niðurgreiðsluna er munurinn 90 þús. kr. á heimili.