136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður hefur lesið málið eins og það liggur fyrir og greinargerðina með því þá liggur það fyrir í athugasemdum við frumvarpið að talið er ólíklegt að unnt verði að koma upp hitaveitum á köldum svæðum þar sem er strjálbýlt og kostnaðarsamt að finna jarðhita og dreifa til notenda.

Tilgangurinn og markmiðið með frumvarpinu eins og það liggur fyrir er í rauninni þrír þættir. Í fyrsta lagi að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum. Í öðru lagi að draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma við niðurgreiðslur. Og í þriðja lagi er einfaldlega spurningin um það að hvetja til atvinnuskapandi verkefna þannig að allir eiga að „græða“ á þessu máli, en það kann að vera að það orð falli hv. þm. Jóni Bjarnasyni ekkert sérstaklega vel í geð, að tala um að „græða“ á einhverju máli.

Ég held að meginmarkmiðin og tilgangurinn með þessu máli sé einfaldlega að mæta þeim óskum m.a. sem hv. þingmaður kynnti hér og um það er ágætissamstaða meðal allra stjórnmálaafla á hinu háa Alþingi. Ég bendi á að í nefndinni er fullkomin samstaða um þetta mál án þess að við höfum endilega þurft að fá einhvern atbeina þess stjórnmálaflokks sem hv. þingmaður gegnir nú þingflokksformennsku fyrir af fullri sæmd og af gríðarlegri atorku.