136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:04]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Orkan leynist víða og hjá hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins líka. Já, það að græða, það er kannski helst að flokkur hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar hafi komið óorði á hugtakið að græða. Bændur græða landið. Við hv. þm. Kjartan Ólafsson þekkjum það vel og við höfum líka lagt fram tillögu um að sjómenn græði hafið. Það að græða eitthvað með þessum hætti er mjög lofsvert og ég held einmitt að við (Gripið fram í: … ekki grætt …) eigum að hugsa það sama um húshitunina eins og hv. þingmaður lagði hér áherslu á.

Ég ítreka það að okkur ber félagsleg og samfélagsleg skylda til þess að íbúar landsins búi við sem jöfnust skilyrði hvað húshitun varðar og allar aðgerðir sem hægt er að grípa til í þá veru eru afar mikilvægar. Þess vegna dró ég einmitt fram þessa stöðu af því að við þekkjum báðir vel til á Skagaströnd og það er þangað sem við viljum endilega að ráðist verði í að leggja hitaveitu til að auka og bæta búsetuskilyrði þar. Ég tel það mjög brýnt. Dæmið sem ég nefndi um mismun í kyndingarkostnaði á íbúðarhúsi á Skagaströnd og íbúðarhúsi í Reykjavík er einmitt sláandi fyrir það um hve mikla mismunun getur verið að ræða í búsetu fólks og samkeppnishæfni (Forseti hringir.) búsetu fólks. Þetta er einnig atvinnuskapandi og orkusparandi (Forseti hringir.) fyrir þjóðarbúið í heild og þetta frumvarp er góður liður í þá veru þótt ekki séu skrefin neitt ofboðslega (Forseti hringir.) stór.