136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:37]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum að ræða um niðurgreiðslur húshitunar, um niðurgreiðslu á kostnað. Það var mjög sérstakt að hér skyldi hæstv. iðnaðarráðherra mæta og fara í andsvör við síðustu tíu, fimmtán ræðumenn sem hér hafa verið í kvöld (Gripið fram í.) og var snöggur að. Það var mjög sérstakt. Það fór mörgum sögum af því þegar fyrrverandi kollegi okkar Guðni Ágústsson var í salnum og talaði um hið margfræga næturblogg hæstv. iðnaðarráðherra. Þannig að hann hefði getað haft einhver orð um það nú.

Það sem ég vildi koma inn á, herra forseti, er að við erum búin að ræða í kvöld einmitt tvö mál frá hæstv. ráðherra og bæði þessi mál hafa verið unnin lengi og mönnum er tíðrætt um átján ára setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Þetta eru mál sem bæði hafa verið í þróun í mörg ár og það er verið að bæta góð mál. Það er það sem er verið að gera. Það er það sem verið er að gera bæði með endurgreiðslu varðandi kvikmyndaiðnaðinn ... (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn átti það.) Hann átti það jafnframt. Ég var í (Gripið fram í.) iðnaðarnefnd og menntamálanefnd þegar þessi frumvörp voru búin til þannig að mér er vel kunnugt um það. En það voru fleiri. Já, það er rétt. Framsóknarflokkurinn átti þann heiður líka ásamt Sjálfstæðisflokknum. Ég er að benda á að mörg mál sem við erum að vinna hér í þinginu hafa verið í þróun í gegnum árin og við erum að bæta þau. Við erum að styrkja okkur og það er nákvæmlega með þetta frumvarp sem hér er. Þannig er það líka. Við erum að bæta í. Við erum að hækka orkusparnaðaraðgerðirnar úr 1% í 3%. Þar er vel að verki staðið. Við þekkjum það að það eru alger forréttindi fyrir þær byggðir á Íslandi sem búa við þann kost að hafa aðgang að heitu vatni eða hitaveitu.

Á undangengnum átján árum, svo við höfum það nú sem markið, þá hefur verið hitaveituvætt gríðarlega víða á landinu. Það er ekkert að byrja nú. Ég þekki það í mínu kjördæmi að þar eru búnar að vera gríðarlegar framfarir sem hafa styrkt byggðirnar, gefið möguleika á nýjum atvinnutækifærum og nýrri búsetu. Þær aðgerðir sem við erum að bæta hér núna hafa því verið við lýði lengi. Við erum einungis að gera gott mál enn betra. Þess vegna fagna ég þessu máli og styð að það sé haldið áfram á þessum vettvangi.

Það eru einkum þrír þættir dregnir fram í athugasemdum við þetta lagafrumvarp. Það eru einkum þrír þættir sem er lögð áhersla á að þetta frumvarp skili, þ.e. að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum, draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið miðað við niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar og hvetja til atvinnuskapandi verkefna. Þetta eru þeir þrír meginþættir sem frumvarpinu er ætlað að ná fram. Það verkefni að hvetja til atvinnuskapandi verkefna lýtur að endurbótum á húsnæði með einangrun og því að bæta húsnæði þannig að það þurfi minni orku. Síðan er hitt að fara inn á köldu svæðin og leita að þeim möguleikum sem eru í farvatninu varðandi aðra orku.

Þá langar mig aðeins að nefna það að hér kemur fram í framhaldsnefndaráliti að gerð hafi verið úttekt á hagkvæmni á varmadælum og smávirkjunum. Smávirkjanir voru hér í eina tíð, hér áður fyrr, mikið notaðar á landsbyggðinni, sérstaklega í því kjördæmi sem ég þekki best til, í Suðurkjördæmi, í Skaftafellssýslum, sérstaklega í Vestur-Skaftafellssýslu þar sem miklir smiðir smíðuðu sínar virkjanir og komu þeim upp sjálfir. Svo var jafnframt á öðrum stöðum á landinu þar sem menn voru duglegir að nýta vatnsaflið heima á býlum og það hefur verið í auknum mæli núna undangengin ár að menn hafa tekið til við að endurgera litlar rafstöðvar og jafnvel byggja nýjar. Það eru miklar framfarir á því sviði og menn eru að bæta búsetuskilyrðin verulega með því að koma þessum litlu rafstöðvum, vatnsaflsstöðvum af stað aftur.

Jafnframt má geta þess að sumar þessara stöðva eru verulega stórar og selja inn á Landsnet eða inn á netið hjá Rarik þannig að það er þá tvíþættur tilgangur með því að byggja þessar smávirkjanir upp sem svo hafa verið nefndar.

Ég gerði örlítið að umtalsefni í fyrri ræðu við 2. umr. mál sem varðar kostnað sem hefur farið mjög hækkandi bæði á raforkuverði og dreifingu rafmagns. Mig langar aðeins að lesa upp úr bréfi til skýringar á máli mínu. Það er bréf sem skrifað er 17. mars 2009 frá byggðaráði Bláskógabyggðar. Þeir segja svo, með leyfi forseta:

„Byggðaráð Bláskógabyggðar mótmælir þeirri ákvörðun stjórnar Rariks um 15% hækkun verðs á dreifingu og flutningi á raforku frá og með áramótum. Jafnframt hefur verið ákveðið að hækka orkuverð um 7–14%. Ákvörðun ríkisins á skerðingu á niðurgreiðslum á dreifingu rafmagns til garðyrkjubænda ásamt umræddum hækkunum valda því að rafmagnskostnaður ylræktenda eykst um 25–30%.“ — Nú frá síðustu áramótum. — „Það er því ljóst að umræddar ákvarðanir koma sérstaklega illa niður á rekstri ylræktenda og setja í raun rekstrarforsendur þeirra í uppnám. Einnig eykur þessi ákvörðun verulega byrðar þeirra heimila sem ekki hafa aðgang að hitaveitu og nýta raforku til húshitunar. Byggðaráð hvetur stjórn Rariks og ríkisvaldið til að endurskoða þessar ákvarðanir.“

Það var akkúrat þetta, herra forseti, sem ég átti við þegar ég fór í andsvör við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, formann iðnaðarnefndar, nákvæmlega þetta að það er að gerast að orkuverð til atvinnufyrirtækja er að hækka um 25–30%, atvinnufyrirtækja sem framleiða matvæli á Íslandi, ylræktarbændur, framleiða matvæli inn á íslenska markaðinn.

Það hlýtur að teljast athugunarvert þegar svo miklar hækkanir eru á þessari einu grein sem raun ber vitni þegar stjórnarflokkarnir, sérstaklega Vinstri grænir, og reyndar ræddi hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson það hér í dag að stuðla bæri að því að þessar atvinnugreinar fengju raforku á sambærilegu verði og stóriðjan. En svo er aldeilis ekki. Það er verið að snarhækka orkuverð til þessara aðila núna og látið er í veðri vaka af hv. stjórnarþingmönnum, bæði úr Samfylkingu og Vinstri grænum, Atla Gíslasyni, að nú eigi að bjarga þessu, það sé bara ekki tími til þess fyrr en eftir kosningar. Það er sérkennilegt og hefur komið fram úr þessum ræðustól að það þarf að vinna að þessu máli að þeirra mati en það þarf að gera eftir kosningar. Þannig er umræðan. Þannig er kynningin og það er ekki þannig sem ég vil sjá þetta gerast.

Nú vil ég fá þessa aðila til að kalla hagsmunaaðila á fund iðnaðarnefndar eins og lofað var og fara yfir málið og gefa hrein og klár svör við því hvernig menn ætla að halda þessu máli áfram. Það er augljóst að þær atvinnugreinar sem þurfa jafnmikið á raforku að halda og þarna um ræðir ráða ekki við þessar hækkanir. Þær ráða ekki við þær. Hvað gerist þá, herra forseti? Þá gerist það að þessi starfsemi leggst af og við þurfum að fara að flytja þessar afurðir inn til landsins og eyða gjaldeyri í staðinn fyrir að spara gjaldeyri. Það er ansi hart þegar atvinnugrein sem framleiðir jafnumhverfisvæna og vistvæna vöru og grænmetið er hefur ekki efni á að borga raforkureikninga sína.

Nú sé ég að hv. formaður iðnaðarnefndar heyrir það sem ég er að segja og ég ítreka að það verði ekki seinna en á morgun að þessir hagsmunaaðilar verði kallaðir á aukafund iðnaðarnefndar og farið yfir málið þannig að menn viti að hverju þeir eiga að búa. Það er ekki hægt að hafa þessa atvinnugrein í þeirri óvissu sem hún býr við núna. Það er verið að tala um það hér að það eigi að gera ráðstafanir til þess að bjarga heimilunum og atvinnulífinu. Þarna er klárt dæmi sem þarf að taka á. Nú gengur hæstv. iðnaðarráðherra í salinn. Ég mundi gjarnan vilja heyra hæstv. iðnaðarráðherra svara því úr ræðustóli Alþingis hér og nú hvernig hann hyggist ráða bót á þessu máli sem upp er komið og svara því hvort þessir atvinnurekendur geti búist við því að búa við það raforkuverð sem þeir geta greitt fyrir.

Herra forseti. Ég sé að það er margt gott eins og ég nefndi hér í upphafi máls míns í þessu frumvarpi. Við erum að feta okkur inn á braut sem er til þess fallin að jafnaður verði aðstöðumunur milli íbúa þessa lands. Auðvitað þarf að gæta þess að það sé gert með því hófi að menn fari ekki út í eitthvert fen með þann kostnað sem getur hlotist af því að koma upp hitaveitu eða öðrum hitagjöfum en almennt gerist á þessu landi. En þá verðum við að búa við það að greiða niður raforkukostnaðinn til þeirra íbúa sem ekki eiga möguleika á öðrum þáttum sem um ræðir. Eins og við þekkjum hafa mörg byggðarlög eins og Dalirnir og Eskifjörður og fleiri staðir fundið heitt vatn og verið hitaveituvæddir á undangengnum árum og það er mjög gott. Ég ætlaði að nefna Stykkishólm. Það var það sem stóð aðeins í mér að muna eftir að þar var samstarfsverkefni sem gerði það að verkum að þar var hægt að hitaveituvæða og það er mjög jákvætt. Í fleiri byggðum er verið að ná slíkum árangri og í þeim sýslum sem ég þekki best til hefur verið unnið gríðarlegt átak á þessum síðustu átján árum, á valdatíma Sjálfstæðisflokksins og þeirra flokka sem með honum hafa unnið. Við skulum ekki gleyma því að það hefur gerst á þeim árum og það hafa verið gríðarlega miklar framfarir einmitt hvað þetta varðar. Því fagna ég auðvitað. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra um orkuverð inn í framtíðina.