136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:53]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki mikla þekkingu á þessum málaflokki. Ég var um tíu ára tímabil formaður þessara samtaka og veit mætavel við hvað þau bjuggu hvað varðar raforkuverð og aðrar aðstæður í samfélaginu.

Ég gerði ásamt Bændasamtökum Íslands svokallaðan aðlögunarsamning við ríkið og það voru þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, og Guðni Ágústsson sem undirrituðu þann samning. Nú hefur verið gengið á svig við hann. Það er það sem ég þekki og veit. Ég var að lýsa því í ræðu minni hér áðan að það er um 25–30% hækkun á raforku.

Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að kynna sér þann aðlögunarsamning sem gerður var. Hann var gerður þannig að þá fengu menn í þessari atvinnugrein raunverulega sams konar aðstæður og kollegar þeirra í Kanada, Noregi og Finnlandi. Við erum að sveigja út af þeirri leið núna og það er þess vegna sem ég spyr hæstv. ráðherra. Ég vil að staðið verði við þennan aðlögunarsamning af hálfu ríkisins.