136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:54]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður á hrós skilið fyrir frumkvæði sitt að þessum aðlögunarsamningi. Það var samningur sem var umdeildur á sínum tíma, m.a. í röðum landbúnaðarins. Ég og fleiri sem höfum talað fyrir auknu frelsi í landbúnaðarmálum studdum þetta dyggilega. Hv. þingmaður hafði bæði þekkingu og reynslu og þá framsýni sem leiddi til samningsins. Í kjölfar hans stórjókst sala á innlendum afurðum. Ef ég man rétt tvöfaldaðist sala á tómötum á þriggja eða fjögurra ára tímabili. Ég held að sala hafi líka aukist verulega á ýmsum öðrum afurðum þeirra þannig að samningurinn var svo sannarlega skref í rétta átt.

Ef hv. þingmaður telur að verið sé að víkja frá þessum samningi verður hann að svara spurningunni sem ég lagði fyrir hann. Það eru ekki nema 6 eða 8 vikur tæpar, 7 vikur, frá því að hv. þingmaður var í stjórnarliðinu. Hvar voru tillögur hv. þingmanns um það að bæta stöðu ylræktarbænda á meðan hann var í ríkisstjórn? Það hefur ekkert sérstakt gerst síðan þá sem hefur kollvarpað stöðu þeirra.

Nú skal ég fúslega viðurkenna að landbúnaðurinn er, eins og aðrar greinar í samfélaginu, í erfiðri stöðu. Það er allt atvinnulíf í landinu. Menn reyna að koma til móts við það eftir því sem þeir geta. Hitt liggur ljóst fyrir að ef hv. þingmaður, sem hefur verið í forustu fyrir samtökum þessara framleiðenda, hafði einhverjar galdralausnir í þessu máli hafði hann ekki fyrir því að koma þeim á framfæri við Alþingi Íslendinga. Ekki kom hann hingað og skammaði fyrrverandi landbúnaðarráðherra fyrir að hafa staðið sig illa. Nei, öðru nær, hann bar blak af honum aftur og aftur.

Það skýtur því skökku við að nú skuli hv. þingmaður koma og telja að himinn og jörð séu að farast í þessum efnum. Skýringin er augljóslega sú — það vita hana allir sem eru hér í þessum sal, þeir sem eru með ráði og rænu, sem eru kannski ekki allir sökum syfju — að Sjálfstæðisflokkurinn er í málþófi hérna. (Forseti hringir.) Hann er að búa sig undir langa stjórnarandstöðu, þetta er svona eins konar skóli í málþófi. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt að ég taki þátt í því, herra forseti, að miðla af gamalli reynslu í þeim efnum. En ég mundi haga mér allt öðruvísi ef ég væri ...