136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[02:11]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen er efnilegur til stjórnarandstöðu. Hann flytur að minnsta kosti skemmtilegar og hnyttilegar málþófsræður og ég þakka honum sérstaklega fyrir að leiða inn í umræðuna bæði Gunnar Gunnarsson og Jóhannes úr Kötlum. Hv. þingmaður lagði fast að mér að gera hrygg (Gripið fram í: Setja hrygg.) — setja hrygg í nokkur þjóðþrifamál og nú get ég trúað hv. þingmanni fyrir því að búið er setja hrygg í bæði þessi mál í iðnaðarráðuneytinu.

Ég get t.d. sagt honum frá því að þeir möguleikar sem felast í því að beisla þyngdaraflið og gang himintungla í gegnum sjávarföllin eru þegar meira en á umræðustigi í iðnaðarráðuneytinu. Iðnaðarráðuneytið hefur lagt 10 millj. kr. í rannsóknir í Breiðafirði til þess að geta í framtíðinni virkjað þann ógnarkraft sem er að finna í sjávarföllum þar og víðar á landinu líka. Hv. þingmaður nefndi eina manngerða framkvæmd, þ.e. (Gripið fram í: Kolgrafarfjörð.) Kolgrafarfjörð og þá má hann heldur ekki gleyma Gilsfirðinum. En það er reyndar sá ráðherra sem hér stendur sem á sínum tíma heimilaði þá brú.

En sami ráðherra lagði líka drög að því að reynt yrði að beisla kraftinn sem þar fer í gegnum. Það hlaut nú ekki náð fyrir þeim stofnunum sem um það ráða. En ég get líka sagt honum frá því að ég var að koma frá Bretlandi þar sem ég reifaði í annað skipti möguleika á samstarfi Breta og Íslendinga á þessu sviði. Bretar eru sennilega næstlengst komnir í heiminum á þessu sviði. Við höfum þegar skoðað sjávarfallavirkjanir í Skotlandi og þar er fullur vilji til samstarfs. Þetta ræddi ég t.d. við utanríkisráðherra Breta í gær ásamt ýmsum öðrum jafnvel mikilvægari málum. Gæti ég fleira sagt af því kannski í seinni ræðum mínum í kvöld, (Forseti hringir.) herra forseti.