136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[02:22]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða af hálfu hv. þingmanns kom skýrt fram við 2. umr. og núna við 3. umr. Hann hefur jafnframt rætt við mig á göngum þinghússins þessa hugmynd sína og tillögu.

Virðulegi forseti. Við 2. umr. var komið í andsvar við hv. þingmann. Jafnframt tók ég fram í ræðu þar sem ég tók umræðuna saman í lokin, og það kom skýrt fram, að enginn þingmaður í salnum, hvorki ég sem hér stend né heldur þingmenn Sjálfstæðisflokksins eða annarra þeirra flokka sem hér töluðu — það tók bara einfaldlega enginn undir þá tillögu hv. þingmanns vegna þess að menn telja að þetta sé ekki raunhæf leið eins og staðan er í dag.

Ef hv. þingmaður ætlar að halda áfram að halda því fram að menn skilji ekki tillöguna sína einfaldlega vegna þess að þeir eru ekki sammála henni og eru ekki sammála því að fara þá leið sem hv. þingmaður boðar, þá eru samræður á ansi miklum villigötum. Ég hvet hv. þingmann til þess að leggja fram þingsályktunartillögu eða frumvarp um að fara þessa leið og þá verður hægt að taka hana til efnislegrar umfjöllunar og annaðhvort að samþykkja hana ef hv. þingmaður nær að vinna henni fylgi eða fella hana. Það er einfaldlega þannig að það tókst ekki í 2. umr. og ekki heldur núna. Þó að fólk sé ekki sammála hans leið þá bið ég hv. þingmann að brigsla því ekki um að skilja hana ekki eða annað slíkt.

Hv. þingmaður er vandur að virðingu sinni og hann vill að hér sé komið fram við hann af virðingu. Ég tel að svo hafi verið gert í þessu máli. Þessu hefur verið svarað af þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins og af þeirri sem hér stendur við 2. umr. Ég tel ekki að við þurfum að dvelja lengur við það. Við höfum rætt þetta, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.