136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að Samfylkingin hefur sett fram ákveðna stefnu í sjávarútvegsmálum og ég held að flestir, ég veit að vísu ekki með sjálfstæðismenn, séu sammála því að það þurfi að breyta fiskveiðistefnunni og taka upp nýja sáttargjörð að því er varðar hana og við höfum nefnt þessa fyrningarleið. Hugmyndir hafa verið settar fram um að fara í fyrninguna á allt að 20 árum og það er spurning á hve löngum tíma farið verður í þetta en við viljum gera þetta með hagsmunaaðilum og með þeim hætti að þetta sé leið sem bæti fiskveiðistefnuna en ekki öfugt. Ég trúi ekki að sjálfstæðismenn vilji viðhalda þessu óréttláta kvótakerfi sem við höfum búið við þar sem leiguliðum eru búin ofurkjör og þeir eru algerlega háðir kvótaeigendum, þannig að mjög mikilvægt er að fara í breytingar. Við þurfum líka að skoða framsalið og hvernig hægt er að fara í breytingar á því, það er mjög mikilvægt, en hvaða áhrif þetta hefur nákvæmlega sjáum við ekki fyrr en við höfum lagt línuna með hagsmunaaðilum og öðrum um það á hve löngum tíma við förum í þessar breytingar. En ég held að nauðsynlegt sé að fara í þær og við verðum að fara í breytingar sem uppfylla t.d. skilyrði um jafnan aðgang að veiðiheimildum og uppfylla þar með kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru allt hugmyndir sem við þurfum að leggja upp með og ef við förum þessa fyrningarleið, sem er alveg nauðsynleg, viljum við stofna auðlindasjóð sem sjái um að varðveita og ráðstafa fiskveiðiréttindum þjóðarinnar.