136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[11:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var afskaplega rýrt svar hjá hæstv. forsætisráðherra og í rauninni ekkert svar, en ég spurði hvaða áhrif hún teldi að stefna Samfylkingarinnar hefði á greiðslugetu sjávarútvegsins, því að með leyfi, virðulegi forseti, segir í samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar um fiskveiðistefnu:

„Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi verði innkallaðar eins fljótt og auðið er og að hámarki á 20 árum. … Auðlindasjóður bjóði aflaheimildir til leigu.“

Þetta er skýr stefna og það er alveg skýr stefna hjá Vinstri grænum að fara sömu leið. Það er líka algerlega ljóst að íslenskur sjávarútvegur skuldar 400–500 milljarða kr. í íslensku bönkunum. (Gripið fram í: 500–600 milljarða.) Þar sem stefnan er skýr er mjög eðlilegt að spyrja hvaða áhrif þessi fyrningarleið, — því menn hljóta að hafa skoðað það hjá Samfylkingunni — þessi skýra stefna, hefur á greiðslugetu sjávarútvegsins og þar af leiðandi á íslenska bankakerfið? (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Sjávarútvegurinn er ... gjaldþrota.)