136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að sjávarútvegurinn er skuldum vafinn og auðvitað þarf að vinda ofan af því með ákveðnum hætti og skapa meiri sátt um fiskveiðistefnuna. Það er auðvitað svar sem er alveg boðlegt að setja hér fram að við viljum ekki búa við óbreytta fiskveiðistefnu og ég hygg að sjálfstæðismenn séu þeir einu sem vilja búa áfram við óbreytta fiskveiðistefnu, sem fyrst og fremst hyglar örfáum kvótaeigendum á kostnað leiguliða. Það er ekki boðlegt að það sé með þeim hætti og framsalið er eitthvað sem við verðum að fara í að afnema eins mikið og hægt er og við þurfum líka að stefna að því að allur fiskur fari á markað. Allar þær breytingar sem ég tala um stuðla að réttlátara og betra kvótakerfi og það eitt er öruggt að ekki er hægt að búa við það að engar breytingar verði á því.