136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

Hatton-Rockall svæðið og deilur við Breta.

[11:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Á síðasta ári var hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson nokkuð brattur og sagði að hann vildi ekki að Bretar kæmu hingað til lands í desember til að sinna loftrýmiseftirliti af því að það mundi misbjóða íslensku þjóðarstolti og sagði hæstv. ráðherra að þeim skilaboðum hefði verið komið áleiðis til NATO. Nú sjáum við fyrirsagnir í blöðunum sem segja að stefni í stríð á milli Íslands og Bretlands um Hatton-Rockall svæðið og þar kemur fram, sem rétt er, að samningaviðræður hafa staðið árum saman og að svæðið er auðugt af olíu. Nú hefur Bretland lagt inn umsókn hjá Sameinuðu þjóðunum um full yfirráð yfir Hatton-Rockall svæðinu í Norður-Atlantshafinu og það stefnir í einhvers konar stríð milli Íslands og Færeyja annars vegar og Bretlands hins vegar og Írland á einnig aðild að þeim samningaviðræðum.

Við erum einnig í miklum vanda gagnvart breskum stjórnvöldum og höfum reynt að nálgast þau varðandi Icesave-reikningana og ekki er búið að leysa þau mál. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur átt fund með utanríkisráðherra Breta um það þannig að ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, í hvaða stöðu við erum núna varðandi Hatton-Rockall svæðið, þar sem við sögðum við Breta fyrir stuttu síðan að við vildum ekki sjá þá hér og að það misbyði íslensku þjóðarstolti að fá þá til Íslands í loftrýmiseftirlit, og svo erum við í miklum vanda vegna samninga um Icesave, sem vonandi fara að leysast.

En ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvað nú? Hvað mun Ísland gera í þessari stöðu og hvernig eigum við að nálgast Breta með þetta mál úr því sem komið er?