136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

Hatton-Rockall svæðið og deilur við Breta.

[11:13]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það getur verið mjög auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að standa hér og segja að þetta séu tvö óskyld mál en það er eigi að síður svo að við erum í viðkvæmri samningagerð við Breta um að fá hjá þeim góð lánakjör vegna Icesave-skuldbindinganna og þar eru alveg gífurlega háar upphæðir á ferðinni. Á sama tíma og við erum í slíkum samningaviðræðum kemur þetta Hatton-Rockall mál upp þannig að það er sú staða sem við erum í, virðulegur forseti.

En ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé þá rétt skilið, miðað við þau orð hans að við munum ekki heimila Bretum að gera þetta, eins og hér var sagt áðan, að Ísland ætli þá að mótmæla ákvörðun Breta? Þannig að við erum þá væntanlega að fara í hart við Breta vegna þeirrar ákvörðunar sem þeir hafa tekið um að leggja inn umsókn hjá Sameinuðu þjóðunum um full yfirráð yfir Hatton-Rockall svæðinu. (Forseti hringir.) Miðað við þau orð sem mér heyrist hæstv. ráðherra segja munum við sem sagt segja stórt nei (Forseti hringir.) við því.