136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Á dagskrá þingsins í dag er frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Ég get ekki annað en komið hingað upp og spurt 1. flutningsmann þess máls hvort hæstv. forsætisráðherra ætli að verða fyrsti forsætisráðherrann í 50 ár til þess að leiða fram breytingar á stjórnarskránni í ágreiningi hér á þinginu.

Ef það er einlægur ásetningur hæstv. forsætisráðherra að leiða fram breytingar á stjórnarskránni í ágreiningi er þá verið að velja heppilegasta tímann til þess þegar 20 dagar eru til kosninga? Þegar þjóðin öll kallar á aðgerðir til þess að bregðast við skuldavanda heimilanna og rekstrarvanda fyrirtækjanna, er þetta þá tíminn til þess að efna til ágreinings um stjórnarskrána?