136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

bætur til Breiðavíkurdrengjanna.

[11:25]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör og ég vænti þess að þetta muni leiða það af sér að viðunandi niðurstaða fáist í málið fyrir kosningar. Það er mikið atriði fyrir þá einstaklinga sem þarna eiga í hlut, hvað sem þeir eru margir, 150 eða 160, að þeir fái einhverja niðurstöðu í sín mál.

Mannréttindi voru brotin á þessum drengjum á sínum tíma og það mjög alvarlega. Það eru auðvitað fleiri mannréttindabrot sem ríkisstjórnin þyrfti að huga að og nota tækifærið á meðan þeir hafa til þess völd að kippa í liðinn eins og mannréttindabrot gegn íslenskum sjómönnum.