136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

staðgöngumæðrun.

[11:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér í ræðustól og segja mér að hann hafi ekki verið undirbúinn undir óundirbúna fyrirspurn. Ég get svo sem alveg haft samúð með því, þetta er ekki mál sem maður fylgist með frá degi til dags og ég þakka fyrir þann tón sem var í ræðu hæstv. ráðherra, þ.e. að hann ætli að afla sér upplýsinga og koma þeim til mín.

Við erum sammála um að þetta þurfi að fara í rækilega skoðun en ég vil þó ítreka það sjónarmið við hæstv. ráðherra að sú rækilega skoðun má ekki taka of langan tíma vegna þess að fólk sem er að bíða eftir þessu úrræði hefur eðli málsins samkvæmt, vegna þess hvernig náttúran virkar, ekki langan tíma.

Ég veit af mörgum einstaklingum og pörum sem bíða í startholunum eftir því að þetta úrræði verði leyft. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að (Forseti hringir.) koma þeim upplýsingum til mín sem hann lofaði og vona að það taki ekki langan tíma.