136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Dagskrá dagsins liggur fyrir um mál 6–9. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim. Við þekkjum öll 5. dagskrármálið, stjórnarskipunarlögin, en mál 6–9, t.d. 6. dagskrármálið um tekjuskatt vegna vaxtabóta — en síðast en ekki síst er 9. málið afar brýnt að okkar mati, þ.e. heimild til samninga um álver í Helguvík, að við fáum það í umræðuna.

Ég kem hingað upp til að undirstrika það að við sjálfstæðismenn viljum forgangsraða dagskrá þingsins í þágu atvinnumála, í þágu verðmætasköpunar og í þágu efnahagsmála. Við undirstrikum það með því að fara fram á það við hæstv. forseta að breyta dagskrá þingsins á þann veg að við komum mikilvægu málunum, málunum sem hægt er að ná sátt um — sem leiða til uppbyggingar fyrir atvinnufyrirtækin í landinu, sem slá skjaldborg um heimilin sem allir eru að tala um en lítið verður úr — áfram í þinginu og látum þá neðar á dagskrána þau mál sem munu eðlilega sæta mikilli umræðu á næstu klukkustundum.