136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:45]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við erum að verða vitni að því hér að Sjálfstæðisflokkurinn reynir að setja stjórnarskrármálið í einhvern búning sem á að forsvara málþóf af þeirra hálfu. Það er alveg greinilegt og þau reyna að segja að það sé eðlilegt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hegðað sér með nokkru móti eðlilega í þessu máli. Sem dæmi um það horfðum við upp á það í fyrradag að inn kom mál um að ná gjaldeyri inn í landið sem á að skila sér, mál sem þurfti að afgreiða mjög hratt og allir vissu það og að lokum var það afgreitt hratt. En þá tóku sjálfstæðismenn upp á því að taka það mál í gíslingu (Gripið fram í.) og það sýnir hvað þetta eru óeðlileg vinnubrögð. Það átti að blanda stjórnarskrármálinu inn í það.

Virðulegur forseti. Það er ekkert annað að gera en að vinda sér í dagskrána eins og hún liggur fyrir og ég skora á hæstv. forseta að standa við hana og svo verðum við bara að sjá hvað eðlilega langur tími þýðir í munni sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.)