136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst óþarfi af hv. þingmanni Framsóknarflokksins að leggja okkur sjálfstæðismönnum línurnar. Það er eðlilegt og öll þjóðin veit að þegar á að gera breytingar á stjórnarskránni, grundvallarlögum lýðveldisins, er eðlilegt að um það sé rætt. Hv. þingmaður hefur skrifað undir eið að stjórnarskránni og á að virða hana og það ætlum við sjálfstæðismenn að gera og ræða um þau mál.

Gallinn við stjórnarskipunarmálið er að það leysir ekki vanda heimilanna. Það hefur ekkert með skuldir heimilanna að gera og ekkert með málefni atvinnulífsins að gera. Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var farið yfir það að 13 þúsund námsmenn verða án vinnu í sumar. Ég ræddi þau mál við (Gripið fram í.) stúdenta á fundi Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, í háskólanum í gær þar sem fram komu miklar áhyggjur. Væri ekki vænlegra fyrir ríkisstjórnina (Forseti hringir.) og hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að ræða frekar atvinnumál ungs (Forseti hringir.) fólks í landinu sem fyrirséð er (Forseti hringir.) að muni mæla göturnar ef ekkert verður (Forseti hringir.) að gert, frekar en ræða um stjórnarskrána.