136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:49]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að hlutverk forseta er að stuðla að því að sátt verði náð um það með hvaða hætti og hvernig dagskrá sé hagað og ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að það eigi að setja atvinnumálin í forgang. Uggvænlegt er að horfa á það, miðað við þær tölur sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson greindi frá, að um 13 þúsund námsmenn eru án vinnu. Þegar eru 18 þúsund manns atvinnulausir í þjóðfélaginu þannig að þessir 13 þúsund námsmenn bætast þar við. Það er alveg ljóst að þetta er mesta og alvarlegasta vandamálið sem við glímum við í dag. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talar um að tafist hafi að afgreiða mál varðandi aukin og hert gjaldeyrishöft. Eðlilega þurfti að taka tíma til að skoða hvort flötur væri á því fyrir okkur sjálfstæðismenn að standa að þeim hlutum. Við vildum ekki standa gegn því þegar upp var staðið, (Forseti hringir.) en þetta braut að hluta til í bága við þá meginskoðun, (Forseti hringir.) sem ég og við höfum talað fyrir um að gjaldeyrishöftunum ætti að létta (Forseti hringir.) af sem fyrst og helst að afnema þau með öllu. (Gripið fram í.)