136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Sjaldan hefur verið meira áríðandi að ræða fundarstjórn forseta. Hér er forseti ekki að vinna með forsætisnefnd og hér eru menn hreint og klárt að setja mál sem alls ekki var lagt upp með að þessi ríkisstjórn mundi gera. (Gripið fram í.) Enginn hefur gagnrýnt það meira en formaður Framsóknarflokksins, en hann benti réttilega á að ekki hefur verið farið í þessar nauðsynlegu efnahagsaðgerðir. Enn og aftur stöndum við hér, virðulegi forseti, með dagskrá þar sem menn eru ekki með þau mál sem skipta mestu máli. Það þýðir ekki fyrir menn að koma hér og segja að stjórnlagaþingið (Gripið fram í.) hafi eitthvað með Fjármálaeftirlitið eða Seðlabankann að gera, (Gripið fram í.) enda er það ekki það brýnasta núna. Það liggur hreint og klárt fyrir að brýnt er að fara í nauðsynlegar efnahagsaðgerðir. Það er það sem formaður Framsóknarflokksins hefur m.a. sagt hvað eftir annað og bent réttilega (Gripið fram í.) á að þessi ríkisstjórn er ekki að gera neitt í því. En enn og aftur erum við með mjög sérkennilega dagskrá og enn og aftur er forseti þingsins að gera eitthvað allt annað en að reyna að hjálpa fólkinu í landinu sem þarf (Forseti hringir.) á aðstoð að halda nákvæmlega núna.