136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að forseti — sem eins og komið hefur fram í þessari umræðu er ekki forseti ríkisstjórnarinnar eða forseti meiri hlutans á þingi heldur forseti alls þingsins — ætti að leggja sig fram við að ná einhverri niðurstöðu í þessu máli í sátt. Ég held að það mundi greiða fyrir störfum þingsins ef menn gætu sest hérna niður og rætt um það, t.d. formenn þingflokka, hvernig haga ætti þessum málum. Ég held að þær athugasemdir sem komið hafa hér fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna við þá dagskrá sem sett er upp í dag séu ósköp eðlilegar í ljósi áherslu okkar á forgangsröðun. Menn geta verið ósammála um hvort mál sem varða atvinnuuppbyggingu og hagsmuni heimilanna séu brýn, menn geta haft þá skoðun að þau séu það ekki, en ég tel og við sjálfstæðismenn að þau mál sem eru á dagskránni nr. 6–9 séu þess eðlis að við ættum að geta farið hratt í þau og afgreitt þau. Það er hins vegar alveg ljóst að auðvitað verður mikil umræða um stjórnarskipunarlög hérna eins og alltaf þegar verið er að ræða grundvallarbreytingar á stjórnarskrá Íslands.