136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:06]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason kom með þá tillögu að gert yrði hlé og athugað með að endurraða dagskránni. Ég gat ekki skilið orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, þegar hann ræddi um það að hér væru á dagskrá mál með töluliðum 6–9 sem skiptu miklu máli öðruvísi en svo að hann tæki í raun undir að það skipti miklu máli að þessi mál fengjust rædd í dag.

Ég tek því undir með hv. þm. Birni Bjarnasyni, hvet forseta til að gera nú þegar hlé á þingfundum og boða til fundar þingflokksformanna til að leita samkomulags um það með hvaða hætti dagskrá þingsins verður í dag þar sem forgangsraðað verði til hagsbóta fyrir heimili og atvinnulíf í landinu þannig að sem fyrst megi draga úr því víðtæka atvinnuleysi sem hér er orðið og er alvarlegasta mengunin, alvarlegasti hluturinn sem blasir við íslenskri þjóð.