136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn viljum ræða hér um málefni heimilanna, skuldir heimilanna og uppbyggingu atvinnulífsins. (Gripið fram í: … tillögur?) Já, við erum með tillögur. Við viljum ræða um álverið í Helguvík (Gripið fram í: En á Bakka?) frekar en — já, já, við getum líka rætt um álverið á Bakka. Við viljum ræða um atvinnuuppbyggingu í landinu. Breyting á stjórnarskrá hefur ekkert með það að gera að byggja upp atvinnu á Íslandi. (Gripið fram í.) Við munum ekki umgangast stjórnarskrána eins og hér er lagt til, að hún verði afgreidd á einhverjum handahlaupum eins og mér heyrist hv. þm. Lúðvík Bergvinsson leggja hér til. Það munum við ekki líða, við berum meiri virðingu fyrir stjórnarskránni en svo.

Við viljum líka ræða um atvinnuleysi ungs fólks. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kallaði hér fram í: Það er fyndið að sjá hvernig þeir láta, og átti við okkur sjálfstæðismenn. Er það fyndið að 13.000 námsmenn gangi um atvinnulausir og að við viljum ræða þann vanda? Hvað er svona fyndið við það? Ég hugsa að námsmönnum sem sjá fram á atvinnuleysi (Forseti hringir.) finnist það ekkert sérstaklega fyndið eins og hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Það er sorglegt, herra forseti, (Forseti hringir.) sem er nú skólastjóri sjálfur, að hann (Forseti hringir.) vilji ekki leggja til að þessi mál verði (Forseti hringir.) tekin til umræðu frekar en stjórnarskráin og stjórnlagaþing.