136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra hvernig menn tala og mér finnst menn hafa afhjúpað sig illilega. Þjóðin vill eðli málsins samkvæmt ræða um atvinnuuppbyggingu. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kallar þetta númeraröð og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gaf hugtakinu hroka nýja vídd þegar hún sagði að þegar 26 þingmenn af 63 vildu forgangsraða fyrir heimilin í landinu væri það mál bara útrætt.

Ég vil fá að vita, virðulegi forseti, af hverju forseti þingsins — ég er búinn að sitja hér í nokkur ár og ég sá forseta þingsins, hv. þm. Sturlu Böðvarsson og hv. þm. Halldór Blöndal, hvað eftir annað boða fundarhlé til að fara yfir dagskrána með þingflokksformönnum þegar svo bar undir — getur ekki orðið við því núna að funda með þingflokksformönnum. Af hverju er virðulegur forseti svo harður á því? Hann segist ætla að halda fund í matarhléinu en ætli samt sem áður að halda áfram með dagskrána. Hvers vegna finnst núverandi forseta, virðulegi forseti, bara ekki koma til greina að setjast yfir með fulltrúum 26 af 63 þingmönnum og fara yfir dagskrá þingsins? Ég hef aldrei séð þessi vinnubrögð áður, virðulegi forseti, og ég vil gjarnan fá svör frá virðulegum forseta um af hverju þetta er svona algjörlega út úr myndinni.