136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vonast til þess að þessum aðdraganda umræðunnar fari að ljúka þannig að við getum einhent okkur í umræðuna sjálfa því að hún er vissulega mikilvæg. En ég veit ekki hvað menn þurfa að vera lengi hér á hv. Alþingi til þess að átta sig á því að það er alltaf gefið hádegisverðarhlé og það er ekkert nýtt. Ég vonast til þess að ég nái að flytja nefndarálit meiri hlutans fyrir hádegisverðarhlé og að minni hlutinn geti jafnvel gert það líka.

En það virðist vera að sjálfstæðismenn treysti sér ekki í þessa umræðu í dagsbirtu. (Gripið fram í: Jú, jú.) Vissulega eru mikilvæg mál neðar á dagskránni en ég legg áherslu á að þetta er líka mikilvægt mál og fólkið í landinu bíður líka eftir þessu máli. Samkvæmt könnunum er gríðarlegur áhugi á stjórnlagaþingi og við þurfum að færa meiri völd til fólksins (Forseti hringir.) eftir það hræðilega ástand sem hefur skapast hér eftir hrun bankanna í október.