136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:28]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem beðið hafa forseta um að gera hlé á fundi nú þegar. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að almenningur og þjóðin í landinu biði í ofvæni eftir stjórnlagaþingi. Það getur vel verið. (Gripið fram í.) En ég held að þjóðin bíði í enn meira ofvæni eftir því að fá að vita hvernig á að bjarga henni út úr þeim aðstæðum sem eru í landinu. Ég held að hún bíði í enn meira ofvæni eftir því.

Það vill svo til að í þeim gögnum sem við höfum fengið, í umsögnunum — í umsögn frá ekki ómerkari aðila en Sjómannasambandi Íslands, sem er nú ein af grunnatvinnugreinunum, er lýst verulegum efasemdum um stjórnlagaþing. Ég held að það væri ráð að þessi minnihlutastjórn, sem studd er af Framsóknarflokknum, færi að hlusta á það að breyta uppröðun dagskrárliða og ræða fyrst brýnu málin. Við getum þá bara rætt (Forseti hringir.) stjórnarskrána fram að kosningum ef það er það sem menn vilja.