136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:32]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er alveg örugglega ekki hlutverk hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að setja ofan í við aðra þingmenn hér í salnum. Hann getur hugsanlega gert það við þingmenn í þingflokki sínum þar sem hann er formaður en hann hefur ekkert með það að gera að setja ofan í við aðra. Ég veit hins vegar ekki hver á að setja ofan í við hæstv. forseta sem því miður varð það á að leyfa hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að tala þrisvar í þessari umræðu en hann átti víst einungis að fá að tala tvisvar.

Ég veit ekki hvernig hæstv. forseti ætlar að bregðast við þessu en hann gæti alveg örugglega gert það í góðri sátt við þá þingmenn sem hér taka þátt í umræðunni ef hann frestaði fundi og héldi fund með þingflokksformönnum, sem hann hefur sjálfur boðað að verði haldinn, hvort sem hann kallar það matarhlé eða eitthvað annað. Það gæti farið vel á því að hafa þá matarhlé í leiðinni.