136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er 17.700 manneskjur atvinnulausar á Íslandi. Það eru 13.000 námsmenn atvinnulausir. Það eru 600 börn sem búa við það að hvorugt foreldra þeirra hefur vinnu.

Við þessar aðstæður finnst mönnum hér hið brýnasta mál að setja á fót stjórnlagaþing til þess að fara að gera breytingar á stjórnarskránni og það vilja menn gera á síðustu stundu. Ýta öllum málum aftur fyrir, taka öll þau atvinnumál sem á dagskránni eru og setja þau aftar, vitandi það að málið er í ágreiningi og vitandi það að þeir þingmenn sem hér eru í stjórnarandstöðu munu nýta sér lýðræðislegan rétt til að ræða stjórnarskrána. Þetta finnst þessari minnihlutastjórn, með dyggum stuðningi framsóknarmanna, vera til sóma. Verði þeim að góðu með það.