136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:42]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu dagskrá þingsins. Forseti er búinn að koma hér fram og tala til þingsins og segja að forseti ráði engu, það sé þingið sem ráði. Ég fer því fram á að forseti geri hlé á þingstörfum svo að hægt sé að koma skikkan á þau mál sem hér eru til umræðu.

Við í iðnaðarnefnd vorum að ljúka því að koma Helguvíkurmálinu út, sem er brýnt mál fyrir hagsmunaaðila í þessu landi. Við stöndum uppi með fullt af fólki sem er atvinnulaust. Hvað gerist ef við komum þessu máli um Helguvík ekki í gegn? Er þetta ekki atvinnuskapandi fyrir íslenska þjóð?

Ég fer því fram á það við hæstv. forseta að hann sjái sóma sinn í því að gera hlé á þingstörfum og taki tillit til sjónarmiða Sjálfstæðisflokksins. Við erum hér 26 þingmenn sem höfum komið hingað upp og kvartað yfir fundarstjórn forseta. Ég óska þess að forseti taki tillit til okkar (Forseti hringir.) málflutnings.