136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[13:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um uppbyggingu atvinnulífs og stöðu ríkissjóðs í því samhengi.

Atvinnuleysi á Íslandi í dag er að nálgast 10%. Um 18 þúsund einstaklingar eru atvinnulausir í samfélaginu. Atvinnuleysisbætur sem greiddar voru í gær námu um 2 milljörðum kr. Umsnúningur á rekstri ríkissjóðs er þess vegna gríðarlegur. Fari fram sem horfir getur greiðsla atvinnuleysisbóta á þessu ári numið 25–30 milljörðum kr. Að sama skapi hefði þetta fólk, ef það hefði haft atvinnu, getað greitt sína skatta og skyldur til samfélagsins sem hefði mögulega getað numið á þriðja tug milljarða kr. Atvinnuleysið bara af þeim sökum skiptir því ríkissjóð og rekstur hans verulegu máli. Um 45–50 milljarða kr. viðsnúningur blasir við rekstri ríkissjóðs á þessu ári ef þróunin heldur áfram sem horfir.

Jafnframt blasir atvinnuleysi við 13 þúsund nemendum við Háskóla Íslands sem sitja núna í setuverkfalli við skrifstofu rektors Háskóla Íslands. Atvinnuleysi blasir jafnframt við þúsundum framhaldsskólanema og háskólanemum í öðrum háskólum landsins þannig að staðan er grafalvarleg, hæstv. forseti. Námsmenn hafa takmörkuð réttindi gagnvart töku atvinnuleysisbóta, fólk sem hefur ætlað sér að vinna fyrir framfærslu sinni og námi á þess ekki kost eins og staðan er í dag. Margir námsmenn munu því þurfa að leita til sveitarfélaganna eftir fjárhagsaðstoð. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að sveitarfélögin í landinu séu í stakk búin til að takast á við það verkefni að aðstoða þúsundir námsmanna í sumar vegna framfærslu, því að þau hafa mjög takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta eins og ég rakti áðan.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í nokkrar af þeim tillögum sem við framsóknarmenn höfum lagt fram á sviði efnahagsmála sem snerta bæði hag heimilanna og fyrirtækjanna. Í ljósi þess að fyrirsjáanlegt er að fjárfestingu skortir mjög í íslensku atvinnulífi vil ég spyrja ráðherrann hver sé skoðun hans á því að settur verði á fót sérstakur uppboðsmarkaður með krónur sem Seðlabankinn héldi utan um. Það má létta af þrýstingi krónunnar umfram það sem náð verður með öðrum aðgerðum með því að Seðlabankinn setji á fót uppboðsmarkað með íslenskar krónur. Það flýtti fyrir því að gjaldeyrishöft yrðu afnumin án þess að hafa í för með sér stórfellda veikingu krónunnar með tilheyrandi vanda fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Í slíkum uppboðum mundi erlendum aðilum gefast kostur á að selja krónur en lífeyrissjóðum, erlendum aðilum og ríkinu gefast kostur á að kaupa krónur. Uppboðin gætu verið reglulega eins og nánar er vikið að í okkar efnahagstillögum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji skoða þessa leið sérstaklega og í því ljósi gætu íslenskir lífeyrissjóðir komið heim með mikla erlenda fjármuni inn í íslenskt hagkerfi og fjárfest í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Það mundi skipta gríðarlega miklu máli í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem er uppi í samfélaginu.

Hæstv. forseti. Staðan er grafalvarleg og við getum einfaldlega ekki horft fram hjá því að það verður að grípa til einhverra fyrirbyggjandi aðgerða þannig að heimilin í landinu verði ekki fyrst keyrð í þrot og síðan verði þeim veitt hjálparhönd. Þetta snýst einfaldlega um mannlega reisn, snýst um að fjölskyldurnar og heimilin fái tækifæri til að komast í gegnum það erfiða skeið sem blasir við okkur án þess að lenda í greiðsluerfiðleikum og fjöldagjaldþrotum.

Fyrirtækin fara nú hvert af öðru í gjaldþrotameðferð og mörg stefna í sömu átt og ég spyr: Hvar endar það? Hvenær verðum við komin í svo djúpan öldudal að ekkert verður við ráðið? Þetta eru eðlilegar spurningar, hæstv. forseti, sem ekki aðeins við þingmenn spyrjum okkur að heldur allur almenningur og atvinnurekendur.

Eins og frægt er orðið lögðum við framsóknarmenn fram efnahagstillögur sem kváðu á um að leiðrétta skuldir heimila um 20% og að sama skapi leiðrétta skuldir fyrirtækja um annað eins og semja um það við erlenda kröfuhafa þannig að íslenskir skattgreiðendur þyrftu ekki að greiða reikninginn vegna þessa. Ég spyr hæstv. ráðherra í ljósi þess að hann hefur ekki tekið vel í tillögur okkar framsóknarmanna í þessum efnum: Hvaða tillögur hyggst hann leggja til í þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi í íslensku samfélagi?