136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég bjó mig undir þessa umræðu í samræmi við yfirskrift hennar, þ.e. staða ríkissjóðs og aðgerðir í atvinnumálum, en ekki kannski að svara einstökum kosningaáherslum Framsóknarflokksins sérstaklega. En það er sjálfsagt mál að gera það og ég mun reyna að gera hvort tveggja, hvort sem það snýr að heimilum eða öðru.

Um ríkissjóð má segja að … (Gripið fram í: Hætta að borga?) Ég fékk beiðni um það, virðulegur forseti, að ræða hér um stöðu ríkissjóðs og atvinnumál. Ég fékk engar aðrar upplýsingar um það mál fyrr en fyrir fimm mínútum hér við borðið (BJJ: Ég sendi …) að hv. málshefjandi rétti mér ýmsar spurningar sem eru m.a. um einstakar tillögur Framsóknarflokksins varðandi skuldavanda heimila. Ég er boðinn og búinn að ræða það en það er ágætt að vita aðeins um það fyrir fram hvað maður á að taka fyrir á fimm mínútum sem maður hefur til ráðstöfunar.

Um stöðu ríkissjóðs er það að segja að í lok árs 2003 voru heildarskuldir ríkissjóðs 230 milljarðar. Það stefnir í að heildarskuldir ríkissjóðs í árslok þessa árs verði 1.100 milljarðar kr. Á tveimur árum versnar staðan sem sagt sem þessu nemur og það er að uppistöðu til hin beinu áhrif bankahrunsins á ríkissjóð sem þar eru að koma fram og afleidd áhrif í hagkerfinu og efnahagslífinu.

Ef við lítum á stöðuna fyrstu tvo mánuði þessa árs er hún þannig að innheimtar tekjur á þessum tíma eru tæplega 91 milljarður samanborið við tæplega 97 milljarða kr. á síðasta ári. Samdrátturinn er því um 6 milljarðar kr. eða 6,2% að nafnvirði. Þetta segir sína sögu um það hvernig samdrátturinn í hagkerfinu er farinn að skila sér með þungum hætti inn í ríkissjóð strax núna í byrjun árs. Sem betur fer eru útgjöld einnig aðeins lægri þannig að gatið eða frávikið er nokkru minna en sem þessu nemur, kannski upp á 3 til 4 milljarða kr. eða svo. Hallinn á þessu ári eins og gengið var frá fjárlögunum er liðlega 150 milljarðar kr. en ég hef gefið það út að því miður megi búast við að hann verði jafnvel meiri eða um 170 milljarðar.

Verkefnið fram undan er strax í fjárlögum næsta árs að ná þessum halla niður og þar hef ég aftur gefið út áætlunartölu af stærðargráðunni 35–50 milljarðar kr. og síðan að ná þessum halla hvað frumjöfnuðinn snertir niður í núll á árinu 2011 og heildarjöfnuð á árinu 2013. Þetta er ramminn utan um það sem fram undan er. Betri upplýsingar hef ég ekki í mínum höndum og þær hafa verið veittar þrátt fyrir allt nöldur um annað.

Um atvinnumálin vil ég segja að þar hefur ríkisstjórnin gert ýmislegt til þess að reyna að örva atvinnulífið og kljást við atvinnuleysi. Það má nefna hlutagreiðslur til atvinnulausra. Það má nefna hækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts. Það má nefna þá gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið sem hér var samþykkt og gert að lögum fyrir nokkru síðan. Það má nefna ívilnanir til bænda til að gera upp virðisaukaskatt. Það má nefna sem lið í atvinnumálum þau gjaldeyrislög sem hér voru samþykkt í fyrradag til að tryggja að íslenskur útflutningur búi við eðlileg samkeppnisskilyrði. Það má nefna það að lækka dráttarvexti með lögum úr 25% í 15% og það má nefna margar fleiri ívilnandi eða mildandi aðgerðir. Þær hafa að vísu, því miður, flestallar það einkenni að þær eru að einhverju leyti á kostnað hægara tekjustreymis til ríkissjóðs, lægri vaxtagreiðslna til ríkissjóðs eða annað slíkt. Gjalddagaaðlögunin byggir t.d. á því að hún er ekki vaxtareiknuð. Sú ívilnun til fyrirtækjanna er án vaxtakostnaðar af hálfu ríkisins.

Það hlýtur öllum að vera ljóst í ljósi þeirra talna sem ég nefndi í upphafi að svigrúm ríkisins er afar takmarkað til að leggja af mörkum í þeim efnum, hvað þá ef það á að fara að bera byrðarnar af stórfelldri almennri niðurfellingu skulda, og svo ég svari þeirri spurningu: Já, ég hef gagnrýnt þessar hugmyndir vegna þess að ég tel þær ekki raunhæfar og ég tel ekki rétt að senda skilaboð um eitthvað óraunhæft út í samfélagið. Og einu get ég lofað hv. þingmönnum að það finnst enginn erlendur kröfuhafi á Íslandi sem er tilbúinn til að gefa okkur mikla peninga í viðbót við það sem hann er búinn að tapa á okkur. Ég hef hitt þá reglulega og fundað með þeim, oft á erfiðum fundum, (Gripið fram í.) og ég hef ekki trú á því að erlendir kröfuhafar, sem samtals eru búnir að tapa eitthvað af stærðargráðunni 5.000–7.000 milljörðum kr. á Íslandi í heild, séu tilbúnir til að gefa okkur mörg hundruð milljarða í viðbót. (Gripið fram í.)

Einnig er mikilvægur hluti af aðgerðunum að endurreisa bankakerfið. Mér er það ljóst, svo að ég svari spurningu hv. þingmanns, að það mun reyna mjög á sveitarfélögin ekkert síður en ríkissjóð í þessum efnum og það er mikilvægt að takast á við atvinnumál námsmanna. Það er verið að skoða þá hluti og hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum miðar einmitt að því að skapa sumarstörf þannig að menn hafa verið sér vel meðvitaðir um það að mikill fjöldi háskólanema og framhaldsskólanema kemur inn á (Forseti hringir.) vinnumarkaðinn með vorinu og það er að sjálfsögðu æskilegt að sem flestir þeirra fái annaðhvort (Forseti hringir.) störf eða að sumarnám verði í boði þannig að menn hafi eitthvað fyrir stafni.