136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér er sett á dagskrá að frumkvæði framsóknarmanna. Ég minni þó á að í umræðu um atvinnumál og ríkisfjármál lagði þingflokkur framsóknarmanna fram 13. mars tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs í 18 liðum og einungis eitt atriði að hluta hefur gengið eftir, þ.e. 1% lækkun stýrivaxta. Það er árangurinn af öllu þessu starfi. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að þegar þessi tillaga er lögð fram á Alþingi er liðinn rúmlega einn mánuður frá því að minnihlutastjórnin tók til starfa og telja framsóknarmenn að ríkisstjórnin hafi ekki ráðist í þær nauðsynlegu og aðkallandi aðgerðir sem voru forsendur þess að ríkisstjórnin var mynduð með atbeina Framsóknarflokksins. Ábyrgð málshefjanda er því nokkur á þeirri stöðu sem uppi er en ekki skal standa á okkur að kalla á aðgerðir til lausnar þeim vanda sem við er að glíma. Ég bendi í því sambandi á dagskrá þingsins í dag að þar eru mikil mál á dagskrá, sérstaklega má nefna verkefni varðandi byggingu álvers við Helguvík og hvet menn til að leggja sitt af mörkum til þess að það mál komist sem fyrst af stað.

Hins vegar liggur það fyrir eftir opinn fund í fjárlaganefnd í gær að tillögur minnihlutastjórnarinnar að úrbótum í þessum efnum eru engar. (Gripið fram í.) Það eru engar upplýsingar um með hvaða hætti á að taka á málum. Það liggur fyrir að blanda á saman skattahækkunum og niðurskurði en útfærslur á því liggja engar fyrir. Hins vegar er alveg ljóst, og það eru ákveðin skilaboð til þeirra 13 þúsund námsmanna sem nú standa frammi fyrir því að mæla göturnar, að tekin hefur verið upp ný launastefna hjá ríkisvaldinu nú um stundir. Það liggur fyrir að fyrir fjögurra daga vinnu er ríkisstjórnin tilbúin til að borga 1.300 þús., 325 þús. kr. á dag, til Evu Joly og það eru ákveðin skilaboð til þeirra 13 þúsund námsmanna sem nú standa úti á (Forseti hringir.) götum og kalla eftir einhverjum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.)