136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:07]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa umræðu. Hún er afar mikilvæg og hv. þingmaður dró ágætlega fram hversu alvarleg staðan er. Þess vegna finnst mér ekki við hæfi að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru að afhenda öðrum valdstjórnina eftir 18 ár skuli tala á þann hátt sem hér var gert áðan.

Meginatriðið er þetta, virðulegi forseti, að fram undan er það verkefni að skapa a.m.k. 30 þúsund störf á næstu árum, það er algjört lykilatriði ef við ætlum ekki að missa fólk úr landi. Það er alveg ljóst að sjávarútvegur og landbúnaður og þær grunngreinar sem við höfum lengi byggt á munu ekki skapa þessi störf. Það er líka alveg ljóst að þessi störf verða ekki sköpuð nema við fáum aðgang að erlendu fjármagni.

Í dag er staðan einfaldlega sú að íslenskir bankar hafa nánast engan aðgang að erlendu fjármagni til þess að byggja hér upp atvinnulíf. Þetta er eitt af þeim lykilatriðum sem við þurfum að horfa til og í augnablikinu sé ég ekki annað nema tvo valkosti í því, annars vegar að erlendir kröfuhafar eignist banka eða a.m.k. þá banka sem mögulegt er að taka yfir og ég nefni þá Glitni og Kaupþing í því samhengi eða að ganga til viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Ég sé ekki aðrar leiðir fyrir okkur í augnablikinu til að nálgast erlent fjármagn til að byggja hér upp atvinnulíf.

Ég vil líka nefna það, virðulegi forseti, af því að við höfum hér skamman tíma að við hljótum að þurfa að skoða það einnig í þeirri miklu umræðu sem nú er um aflabrögð hringinn í kringum landið að auka við aflaheimildir. (Gripið fram í: Af hverju er það ekki gert?) Það er t.d. mjög athyglisvert (Gripið fram í: Síldveiðar.) ef ég nefndi Vestmannaeyjar sérstaklega, þar eru (Forseti hringir.) hefðbundnir vertíðarbátar búnir með sínar aflaheimildir um miðjan mars, (Forseti hringir.) en alla jafna hefur vertíðin staðið fram í maí. Og aðeins það og sú umræða sem fram hefur farið hjá sjómönnum (Forseti hringir.) hlýtur að kalla á skoðun á því að auka við aflaheimildir.

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmenn um að gæta tímans.)