136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:12]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Án nokkurs vafa verða næstu mánuðir og eitt, tvö ár mjög erfið fyrir íslenska þjóðarbúið þó svo að það sé mikilvægt að menn missi ekki móðinn þegar horft er til lengri tíma. Vandinn sem er að hellast yfir okkur er vissulega mikill þó að hann sé ekki óyfirstíganlegur gefi menn sér nokkurn tíma til að vinna sig frá honum. Atvinnumálin skipta auðvitað miklu máli þegar atvinnuleysi er orðið svo mikið sem raun ber vitni og þá skiptir líka miklu máli að þeir sem eru við stjórnvölinn séu tilbúnir til þess að nýta þau tækifæri sem mönnum eru opin um þessar mundir. Má ég minna á möguleika eins og þá sem felast í hvalveiðum? Ekki verður séð að það mál eigi greiða leið í gegnum þingið og hefur mætt töluverðri andspyrnu að ýta þeirri atvinnugrein úr vör á nýjan leik.

Í öðru lagi eiga menn óhikað að nýta þá möguleika sem unnt er að nota í stóriðju. Má ég minna á það mál sem liggur fyrir þinginu um Helguvík og ekki virðist eiga greiða leið í gegnum þingsali? Menn verða að leggja til hliðar fyrri afstöðu til atvinnuuppbyggingar og nýta þá möguleika sem fyrir hendi eru, þegar við sjáum fram á 17 þúsund manns án atvinnu geta menn ekki bundið sig fasta í kreddur sem ráðið hafa ríkjum á undanförnum árum.

Ég vil líka vara við því, virðulegi forseti, að menn séu með óraunhæfar lausnir til þess að komast frá þeim vanda sem margir hafa komið sér í í sínum eigin fjármálum. Það er engin lausn fólgin í því að velta skuldaböggum af einum yfir á herðar annarra. Þetta eru skuldbindingar sem menn hafa tekist á hendur að uppfylla og menn verða í meginatriðum (Forseti hringir.) að axla þær.